Stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu

september 22, 2008
Þriðjudaginn 23. september kl. 20:30 flytur Sigurður Líndal, prófessor við Háskólann á Bifröst, fyrirlestur í bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti. Tilefnið er dánardagur Snorra Sturlusonar þann 23. september 1241.
Sigurður mun í erindi sínu leitast við að að varpa ljósi á stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu, en með orðinu stjórnspeki er átt við það sem oft er kallað pólitískar hugmyndir. Leitast verður við að gera grein fyrir þeim viðhorfum sem fyrirferðarmest voru á þessu sviði frá því á miðri 11. öld til loka hinna 13. Þetta voru miklar umbrotaaldir í stjórnskipunarsögu Evrópuþjóða og hugsun stjórnspekinga beindist öðru fremur að uppruna og eðli valds og laga. Í upphafi tímabilsins var þjóðfélagsvaldið í höndum margra höfðingja og smáfursta, þannig að það var að vissu marki dreift, en við lok tímabilsins hafði það að miklu leyti safnast til þjóðhöfðingja sem oftast bar heitið konungur.
Sigurður Líndal er fæddur 1931. Hann lauk BA-prófi í latínu og mannkynssögu 1957, embættispróf í lögfræði, cand. jur. 1959 og cand. mag. (M.A)-próf í sagnfræði 1968. Hann lagði stund á réttarsögu við Háskólann í Kaupmannahöfn 1960, við Háskólann í Bonn 1961-62 og við University College í Oxford 1998 og 2001. Sigurður hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa, m.a. verið dómarafulltrúi við embætti Borgardómara í Reykjavík, gegnt starfi hæstaréttarritara, setið í skattsektanefnd og verið dómari í Félagsdómi. Hann varð lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1967 og síðan prófessor 1972, en þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2001. Þar fyrir utan hefur hann starfað sem gistiprófessor við University College í London. Sigurður hefur setið í ýmsum nefndum og stjórnum, meðal annars verið forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands 1976-2001 og er núverandi forseti Hins íslenzka bókmenntafélags. Þá sat hann í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar 1996-2006, var ráðunautur landstjórnar Færeyja í sjálfstæðismálum 1997-2000, sat í ritstjórn Nordisk administrativt tidsskrift 1984-99, var ritstjóri Skírnis (ásamt Kristjáni Karlssyni) 1984-86 og hefur verið ritstjóri Sögu Íslands frá 1972. Hann hefur frá því í fyrra gegnt stöðu prófessors við Háskólann á Bifröst. Þá er hann stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Sigurður er kvæntur Maríu Jóhannsdóttur, BA (Hons) í hagfræði og félagsfræði frá Háskólanum í Manchester.
Að loknum fyrirlestri verður boðið upp á veitingar en síðan gefst gestum tækifæri til að ræða efni fyrirlestrarins. Aðgangseyrir er 500 kr. og eru allir velkomnir.
(Fréttatilkynning)
 
 

Share: