Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkir starfsmannastefnu, siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og innkaupareglur.
Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar þann 12. maí s.l. var samþykkt starfsmannastefna fyrir Borgarbyggð, en vinna við gerð stefnunar hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Drög að stefnunni voru kynnt fyrir starfsfólki sveitarfélagsins og tóku drögin nokkrum breytingum eftir þá kynningu.
Í starfsmannastefnu er farið yfir ýmsa þætti s.s.; ráðningarréttindi, starfsþróun, símenntun og starfshæfni, launakjör, vinnuumhverfi og ábyrgð og skyldur stjornenda og annarra starfsmanna. Markmiðið með starfsmannastefnunni er að Borgarbyggð hafi á að skipa traustum starfsmönnum sem veiti íbúum góða þjónustu. Auk þess sem stefnan á að stuðla að því að gera stofnanir Borgarbyggðar að betri vinnustöðum fyrir starfsfólkið.
Þá voru samþykktar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. Markmið reglnana er að skilgreina það hátterni og viðmót sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Borgarbyggðar. Reglurnar ná til kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa og annarra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum Borgarbyggðar.
Loks voru samþykktar innkaupareglur fyrir sveitarfélagið, en sveitarfélögum ber í dag að setja sérstakar reglur um innkaup. Innkaupareglur eru settar til að suðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum og tryggja gæði vöru, þjónustu og verka sem Borgarbyggðar kaupir. Reglurnar skulu jafnframt tryggja að litið sé til umhverfissjónarmiða við innkaup.