Eins og greint var frá í síðustu viku á heimasíðu Borgarbyggðar var ákveðið að flytja starfsemi Öldunnar tímabundið á Borgarbraut 65, 6. hæð í kjölfar athugasemda frá eldvarnareftirliti Slökkviliðs Borgarbyggðar og byggingarfulltrúa.
Í kjölfar úttektarinnar á Öldunni var ákveðið að framkvæma heildarúttekt á Brákarbraut 25-27. Niðurstöðurnar voru kynntar fulltrúum byggðarráðs og starfsmönnum Borgarbyggðar í gær og í kjölfarið var ákveðið að boða alla leigutaka í húsnæðinu á fund sem átti sér stað í Hjálmakletti í dag kl. 13:00. Leigutökum var á fundinum greint frá niðurstöðu úttektarinnar og að ljóst væri að sveitarfélagið ætti ekki annarra kosta völ en að stöðva starfsemi í húsnæðinu um óákveðinn tíma frá og með laugardeginum 13. febrúar n.k. Áhaldahúsið verður með sína starfsemi í húsinu tímabundið og mun sinna umsjón með húsnæðinu þar til annað verður ákveðið.
Ekki er um léttvæga ákvörðun að ræða en nauðsynleg til að tryggja öryggi og heilsu þeirra sem hingað til hafa haft starfsemi í húsnæðinu. Niðurstöður úr úttektunum leiddu í ljós að nauðsynlegt væri að gera töluverðar úrbætur á húsnæðinu, m.t.t. til eldvarnar- og öryggismála í húsinu. Helstu athugasemdir vörðuðu flóttaleiðir, vatnsleka, brunahólfun, rafmagnsmál og leiðir til reyklosunar.
Byggðarráð mun fjalla um málið á fundi sínum næstkomandi fimmtudag og verða þá ákvörðuð næstu skref. Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um framtíð húsnæðisins að svo stöddu.
Borgarbyggð vill koma því á framfæri að umferð um húsið er stranglega bönnuð. Leigutökum verður heimilt að geyma muni sína í húsnæðinu tímabundið en skulu fá heimild frá verkstjóra áhaldahússins í hvert skipti sem þeir hafa hug á að fara inn í húsnæðið.