Síðastliðinn mánuð hefur verið unnið að því að keyra út tunnur í dreifbýlið og mun því ljúka í lok þessarar viku eða 11. júlí. Þá verður farið yfir alla afhendingarstaði og athugasemdir sem hafa borist og í næstu viku mun verða farið með tunnur heim að þeim bæjum sem hafa orðið útundan einhverra hluta vegna og einnig teknar þær tunnur sem hafa farið á ranga staði.
Bæklingur sem skýrir hvernig flokka á í tunnurnar verður sendur á öll heimili í dreifbýli um leið og hann berst Borgarbyggð. Sambærilegan bækling má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins.
Þegar sorphirðudagatal berst frá verktaka mun endurnýjað sorphirðudagatal fyrir Borgarbyggð verða birt með skýringum á baksíðu Íbúans sem fer í dreifingu um allt hérað.
Íbúar eru beðnir um að sýna biðlund. Það verða vafalítið ýmsir hnökrar á þjónustunni til að byrja með þar til rúnturinn er kominn í vana í þessu landstóra sveitarfélagi. Ef einhverjir hafa ekki fengið tunnur en telja sig eiga að fá þær eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Björgu Gunnarsdóttur umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa Borgarbyggðar.