Söngvakeppni Samfés á Vesturlandi

febrúar 18, 2005
260 manns mættu á Hótel Borgarnesi í gærkvöldi til þess að hlusta á tíu atriði frá fimm félagsmiðstöðvum á Vesturlandi allt til Hólmavíkur keppa um þrjú laus sæti á Söngvakeppni Samfés.
Hrósa verður unglingum í Óðali sem héldu keppnina að þessu sinni á Hótel Borgarnesi fyrir skipulag og umgjörð en fjölmargir lögðu mikla vinnu í að hljóð og ljósagangur tækjust vel eins og raun varð á.
Keppendahóparnir tíu stóðu sig allir frábærlega vel enda höfðu þeir flestir verið í toppsætum í söngvakeppnum sinna félagsmiðstöðva. Í þriðja sæti varð frábær hópur frá Félagsmiðstöðinni Hólmavík þau Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir
Björk Ingvarsdóttir sem sungu lagið „I´ll stand by you“ og spiluðu þau Lára Kristjánsdóttir og Bjarki Einarsson undir á píanó og kassagítar. Í öðru sæti var bráðefnileg söngkona frá Félagsmiðstöðinni Arnardal Akranesi Ylfa Flosadóttir sem kom með frumsamið lag og ljóð eftir sig og flutti mjög vel.
Sigurvegarar Söngvakeppni Vesturlands voru heimamenn úr Óðali þær Gunnhildur Lind Hansdóttir, Martha Lind Róbertsdóttir og Hugrún Bjarnadóttir sem fluttu með tilþrifum lag sitt.
Þessi þrjú atriði verður framlag Vesturlands á Söngvakeppni Samfés 5. mars í Mosfellsbæ.
Einnig komu atriði frá Félagsmiðstöðinni X-inu Stykkishólmi og frá Félagsmiðstöðinni Eden Grundarfirði og stóðu flytjendur sig vel þótt þau ynnu ekki til verðlauna að þessu sinni.
Meira var sungið þennan dag í Borgarnesi því Singstarkeppni var í Óðali og tóku tugir unglinga þátt í henni. Sigurvegari í þeirri keppni var Unnur Eva Ólafsdóttir úr félagsmiðstöðinni Ozon Hólmavík og verður hún fulltrúi á Samféshátíðinni líka. Unglingar úr þessum fimm félagsmiðstöðum takk fyrir frábært kvöld- þið voruð öll frábær.
i.j.
 
 
 

Share: