Nú vinna ungmennin í Mími ungmennahúsi og nemendafélagi menntaskólans sameiginlega að undirbúningi söngkeppni/hátíðar sem fram fer næsta fimmtudag í sal menningarhússins. Stífar æfingar standa yfir í nýja hljómsveitaræfingahúsnæðinu í ungmennahúsinu. Í síðustu viku var lokið við að hljóðeinangra aðstöðuna þar með sérstökum hljóðgildrum og tókst frábærlega. Í viðbót við tækjakostinn sem þau hafa þegar safnað sér keypti húsráð ungmennahúss glænýjan bassamagnara í síðustu viku sem nú kemur sér vel að hafa en ungmennin verða með hljómsveit sem leikur undir öll lög í keppninni þannig að þetta stefnir í frábæra hátíð hjá þeim á fimmtudag. Fleiri skemmtiatriði verða flutt en þau sem keppa um sæti um að komast í Söngkeppni framhaldsskólans , því unglingar úr félagsmiðstöðvum stíga einnig á svið með söngatriði og verið er að taka upp vídeóklippur af keppendum til að sýna jafnhliða. Ekkert verður til sparað í tæknimálum og frítt inn til að fá sem flesta til að sjá hvað ungmennin okkar eru að gera í starfi sínu.
Samkoman verður auk þess hljóðrituð og mynduð „live“ eins og það er kallað með útgáfu geisladisks í huga.
Sjá viðhengi – Allir velkomnir.
IJ