Snorrastofa – Sturla Þórðarson og konurnar

apríl 15, 2009
Þriðjudagskvöldið 21. apríl klukkan 20:30 mun Úlfar Bragason, forstöðumaður Stofu Sigurðar Nordals og rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum flytja fyrirlestur í bókhlöðu Snorrastofu sem ber heitið Sturla Þórðarson og konurnar. Fyrirlesturinn er hluti af sk. Fyrirlestrum í héraði, sem styrktir eru af Menningarráði Vesturlands. fréttatilkynning
Í fyrirlestri sínum fjallar Úlfar um tilfinningalegt, vitsmunalegt og fjárhagslegt samband Sturlu Þórðarsonar sagnaritara við konurnar sem næst honum stóðu, eins og það birtist í Íslendinga sögu. Sturla var ekki aðeins helsta heimild þeirrar sögu heldur einnig sögumaður og ein af persónum frásagnarinnar. Þar er að finna nokkra helstu drættina í ævisögu sagnaritarans sjálfs. Samt verður að hafa í huga að áherslur og efnisval frásagnarinnar er mótað af bókmenntahefð á Íslandi á 13. öld. Sagan gefur því mjög takmarkaða mynd af sögupersónum og sambandi þeirra þótt hún látist segja satt og rétt frá. Engu síður má lesa út úr frásögninni viðhorf sagnaritarans til þeirra kvenna sem koma við sögu. Jafnvel er unnt að merkja áhrif þeirra á frásögnina.
Fyrirlesturinn hefst sem fyrr segir klukkan 20:30 þriðjudaginn 21. apríl í bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti. Aðgangseyrir er 500 kr, en boðið verður upp á veitingar í hléi.
 
 

Share: