Snjómokstur

janúar 28, 2019
Featured image for “Snjómokstur”

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir skömmu breyttist veðurfar eftir óvanalega milda og þægilega haust- og vetrarmánuði fram yfir áramót. Snjó kyngdi niður og líkur eru til að óbreytt veðurfar sé í kortunum fram yfir mánaðamót.

Unnið er eftir snjómokstri í sveitarfélaginu eftir ákveðnu skipulagi. Vegagerðin annast mokstur á helstu samgönguæðum.

Snjómokstri og hálkueyðingu í Borgarbyggð er stjórnað af Umhverfis – og skipulagssviði Borgarbyggðar og Vegagerðinni. Sviðsstjóri umhverfis-og skipulagssviðs ber ábyrgð á snjómokstri í sveitarfélaginu.

Borgarbyggð annast mokstur og hálkuvarnir að og við stofnanir sveitarfélagsins í dreifbýli og þéttbýli; við heilbrigðisstofnun HVE í Borgarnesi, slökkvistöðvar, húsnæði björgunarsveita,  leik-og grunnskóla, íþróttamiðstöð, Safnahús og Ráðhús.

Verktakar annast mokstur gatna í þéttbýli og í dreifbýlinu þar sem mokað er á vegum Borgarbyggðar en starfsmenn Borgarbyggðar annast mokstur stíga og annarra áþekkra svæða.

Unnið er eftir ákveðnu skipulagi þar sem búið er að forgangsraða moksturssvæðum eftir hve mokstur er áríðandi.

Snjómokstursfulltrúar eru tengiliðir við íbúa, Vegagerðina og snjómokstursverktaka sinn á hverju svæði. Þeir hafa ekki upplýsingar um veður eða færð á öllum vegum en leggja sig vitaskuld allir fram um að hafa sem besta yfirsýn yfir verkefnið.

Vegagerðin hefur skilgreint vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu, allt að þrisvar í viku þar sem kostnaður skiptist til helminga á Vegagerð og Borgarbyggð.

Snjómokstursreglur Borgarbyggðar er að finna á heimasíðu Borgarbyggðar: https://borgarbyggd.is/thjonusta/umhverfis-og-skipulagssvid/thjonusta/

Einnig er þar að finna kort yfir þéttbýlisstaði í Borgarbyggð þar sem búið er að merkja inn forgangsröðun í snjómokstri. Íbúar eru hvattir til að kynna sér þessar reglur.

Mikilvægt er að þeim sem annast snjómokstur sé sýnd tillitssemi við störf sín. Þeir leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, við að halda akstur- og gönguleiðum í sveitarfélaginu greiðfærum.

Sveitarstjóri


Share: