Skýrsla vinnuhóps um hagræðingu í fræðslumálum

október 22, 2009
Síðastliðið sumar skipaði sveitarstjórn Borgarbyggðar vinnuhóp til að gera tillögur um leiðir til að draga úr kostnaði við rekstur fræðslumála í Borgarbyggð, en fræðslumálin hafa tekið til sín um 65% af skatttekjum sveitarfélagsins.
Í vinnuhópnum voru; Finnbogi Rögnvaldsson, Finnbogi Leifsson, Hrefna B. Jónsdóttir og Snorri Sigurðsson. Auk þess störfuðu þær Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri og Linda B. Pálsdóttir fjármálastjóri með hópnum. Þá kallaði hópurinn til sín ýmsa aðila til viðræðna og ráðgjafar.
Skýrsla vinnuhópsins var lögð fram á fundi byggðarráðs í gær og var síðan kynnt fyrir fræðslunefnd, skólastjórnendum og fleiri aðilum á fundi í dag. Í skýrslunni leggur hópurinn til ýmsar tillögur um hagræðingu í rekstri leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og tómstundaskóla. Fyrirhugað er að skýrsla hópsins verði nýtt sem grundvöllur fyrir ákvörðunartöku sveitarstjórnar um hagræðingu í fræðslumálum og því fór hópurinn þá leið að benda á sem flesta möguleika til að draga úr kostnaði við rekstur skóla í sveitarfélaginu.
 
Til að sem flestir íbúar geti kynnt sér innhald skýrslunar verður hún aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins, auk þess sem fyrirhugað er að halda íbúafundi um skólamál á næstu dögum þannig að íbúar fái tækifæri til að koma skoðunum sínum um forgangsröðun í skólamálum á framfæri.
 

Share: