Skuldir Borgarbyggðar lækkuðu árið 2013

apríl 15, 2014
Góður árangur náðist við að lækka skuldir Borgarbyggðar á árinu 2013. Skuldaviðmið sveitarfélagsins var í árslok 122% og hefur lækkað um tæp 25 prósentustig á tveimur árum. Á árinu var greitt af lánum fyrir 364 milljónir og var lögð áhersla á að greiða upp lán með óhagstæðum vaxtakjörum.
Þetta kemur fram í ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2013 sem lagður var fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar 10. apríl s.l. Helstu kennitölur í reikningnum eru;
 
Heildartekjur sveitarsjóðs Borgarbyggðar og B-hluta fyrirtækja voru 2.969 milljónir króna á árinu 2013 en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða voru 2.765 milljónir kr. Framlegð sveitarfélagsins var 11.3%. Fjármagnsgjöld voru alls 245 milljónir kr.
Samantekin rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2013 var neikvæð um 41 milljón kr., sem er rúmlega 45 milljónum kr. verri útkoma en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir.
Veltufé frá rekstri var 196 milljónir kr. eða 6,6% af rekstrartekjum, 20 milljónum kr. minna en áætlað var.
Heildarskuldir og skuldbindingar voru 4.605 milljónir kr. í árslok. Afborganir langtímalána námu 364 milljónum kr. Tekin voru ný lantímalán fyrir 80 milljónir kr. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var 1480 milljónir kr. og eiginfjárhlutfallið 24%.
Sveitarfélagið fjárfesti fyrir 195 milljónir kr. í varanlegum rekstrarfjármunum. Eignir sveitarfélagsins voru í árslok að andvirði 6.085 milljónir kr.
Skuldaviðmið Borgarbyggðar í árslok 2013 er 122%. Ef eingöngu er horft á skuldaviðmið sveitarsjóðs þá er það 94%.
Tvö fyrirtæki í B-hluta, mennta- og menningarhúsið Hjálmaklettur og hjúkrunarálma við dvalar- og hjúkrunarheimilið Brákarhlíð eru nokkuð skuldsett, en á móti skuldum þessarra fyrirtækja er verulegar leigutekjur frá ríkissjóði.
 

Share: