Skönnun teikninga og miðlægur gagnagrunnur teikninga hjá Borgarbyggð

september 10, 2007
Síðar á þessu ári mun verða mögulegt að nálgast húsateikningar, burðarvirkisteikningar, lagnateikningar, skipulagsuppdrætti og fleiri gögn á heimasíðu sveitarfélagsins gegnum miðlægan gagnagrunn.
Þetta mun bæta þjónustuna við íbúa sveitarfélagsins og mun einnig létta störfin á framkvæmdasviði Borgarbyggðar, en talsvert er um að óskað sé eftir afriti af teikningum, bæði af einstaklingum, verktökum, hönnuðum, fasteignasölum og fleiri aðilum.
Það verður vonandi hagræðing fyrir marga að geta nálgast teikningar miðlægt á veraldarvefnum og er auk þess öryggisatriði að varðveita teiknigögnin á tölvutæku formi því þótt pappírseintakið glatist, verður afritið alltaf til !
Nú er þessi skönnunarvinna senn á enda, en heildarfjöldi teikninga í “safni” framkvæmdasviðs/byggingarfulltrúa reyndist vera um 29.000 talsins.
Það er verk- og kerfisfræðistofan Snertill í Kópavogi sem annast skönnunina.
Á meðfylgjandi mynd má sjá starfsmenn framkvæmdasviðs þau Baldur Tómasson byggingarfulltrúa og Guðbjörgu Baldursdóttur, rýna í eina af þeim 29.000 teikningum sem búið er að skanna inn. (Mynd: Jökull Helgason, verkefnastjóri framkvæmdasviðs.)
 

Share: