Skóli í smíðum

ágúst 1, 2008

Byggingu Menntaskóla Borgarfjarðar miðar vel áfram þessa dagana og koparklæðning hússins langt komin.
 
Rétt eftir ásetningu hefur koparinn á sér gullinn blæ en við snertingu við súrefni tekur hann fljótlega sinn rétta lit.
Vinna við hátíðarsal hússins gengur einnig vel, og vænta má mikils af honum fyrir borgfirskt menningarlíf ekki síður en fyrir skólann sjálfan. Verið er að ganga frá nánasta umhverfi skólans jafnframt smíðunum innan dyra og hefur bílastæði m.a. verið malbikað.
 
Skólahald haustsins í MB hefst 20. ágúst næstkomandi og verða nemendur skólans á annað hundrað í vetur sem er nánast helmingsaukning frá fyrsta starfsárinu.
 
Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir

Share: