Skólaakstur fyrir grunnskólanema

ágúst 30, 2017
Featured image for “Skólaakstur fyrir grunnskólanema”

Í vor bauð Borgarbyggð út skóla- og tómstundaakstur og var Ríkiskaup falið að sjá um framkvæmd útboðsins.

Óskað var eftir tilboðum í skólaakstur fyrir grunnskólanema í fjögur skólaár, þ.e. frá byrjun skólaárs haustið 2017 til og með loka skólaárs vorið 2021 og akstur grunnskólanemenda í tómstundastarf eftir skóla og í sumarstarfsemi Vinnuskólans og Sumarfjör á sama tímabili.

Um er að ræða akstur við Grunnskólann í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi, Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri.

Gerðar voru kröfur um að allar bifreiðar skulu uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða um gerð og búnað ökutækja og reglugerðar um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. Bifreiðar skulu ávallt vera í fullkomnu ástandi og búnar með tilliti til akstursskilyrða á hverjum tíma (þ.m.t. hjólbarðar of.l.).  Að auki er gerð sú krafa að vélar hópferðabifreiða uppfylli a.m.k. kröfur EURO IV staðals en jafnframt er óskað að vélin hafi eins háan EURO staðal og hægt er miðað við framleiðsluár hópferðabifreiðar. Í bifreiðunum skal vera öflug upphitun og skal hitastig í upphafi ferðar að jafnaði vera komið í +12°C. Bifreiðar skulu vera á nagladekkjum frá 15. október  – 14. apríl ár hvert.

Öryggi og búnaður bifreiða skal vera í samræmi  við 5. grein reglugerðar nr.  656/2009 um skólaakstur í grunnskóla. Meðal skilyrða er að þriggja punkta öryggisbelti séu fyrir alla farþega og eitt sæti fyrir hvern farþega.

Bifreiðastjórar skulu vera á aldrinum 25 ára til 70 ára, hafa hreint sakavottorð og hafa öll tilskilin leyfi til aksturs með skólabörn gegn gjaldi. Þeir skulu skila inn læknisvottorði í upphafi hvers árs til skólastjóra, vera snyrtilegir,  gera sér far um að eiga vinsamleg samskipti við farþega, tala og skilja vel íslensku.

19 akstursleiðir eru eknar á degi hverjum yfir vetrarmánuðina. Í kjölfar útboðsins var samið við sex aðila. Daglegur skólaakstur er samkvæmt skólaakstursáætlun sem nálgast má hér

Leiðir skólabíla 2017-2018 í Borgarbyggð


Share: