Mikil uppbygging í Borgarbyggð

ágúst 31, 2017
Featured image for “Mikil uppbygging í Borgarbyggð”

Borgarbyggð er öflugt samfélag með þróttmiklu atvinnulífi. Það er eitt víðfeðmasta sveitarfélag landsins sem býr yfir miklum tækifærum á ýmsa lund. Mikil uppbygging hefur verið í héraðinu undanfarin misseri og mikið er framundan. Framkvæmdahugur er mikill bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Því er og hefur verið mikill annatími í skipulags- og byggingarmálum í sveitarfélaginu. Ekki er útlit fyrir annað en að svo verði áfram. Þær breytingar í samfélaginu sem t.d. aukinn ferðamannastraumur til landsins hefur leitt af sér skapar ótal tækifæri. Þessi þróun felur í sér miklar áskoranir, bæði fyrir almenning, fyrir þau fyrirtæki sem starfa að þessum málum en einnig fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins. Skipulagsmál eru tímafrek og málsmeðferðartími getur verið langur því sá rammi sem skipulagslög setja er mjög ítarlegur. Til að vinnsla og afgreiðsla mála gangi sem greiðast fyrir sig er því mjög mikilvægt að erindum með tilheyrandi gögnum sem varða skipulags- og byggingarmál sé skilað með góðum fyrirvara til sveitarfélagsins. Einnig er mikilvægt að tryggt sé eins og verða má að öll nauðsynleg gögn fylgi með erindum þegar þau berast sveitarfélaginu.  Það flýtir fyrir afgreiðslu erinda.

Mörg erindi er varða skipulags- og byggingarmál þurfa að fara fyrir Umhverfis, skipulags- og landbúnaðarnefnd og er því rétt að benda á að sú nefnd fundar einu sinni í mánuði, skömmu fyrir sveitarstjórnarfund. Sveitarstjórn fundar annan fimmtudag í hverjum mánuði. Sveitarstjórn þarf að staðfesta afgreiðslu Umhverfis, skipulags- og landbúnaðarnefndar áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu.


Share: