Skógarkerfill er ágeng tegund sem hefur sótt í sig veðrið á Suðvesturlandi undanfarin ár. Merkja má aukningu í útbreiðslu skógarkerfils í Borgarbyggð og þekkt er að kerfillinn getur á skömmum tíma orðið að illgresi, þ.e. dreifst og vaxið þar sem fólk kærir sig ekki um.
Þrjár leiðir hafa einkum verið notaðar í baráttunni við kerfilinn; beit, sláttur og úðun. Vitað er að sauðfé og hross bíta kerfilinn sem nýgræðing snemma sumars og reynsla af slætti er mismunandi og skiptir sláttutími þar mestu máli. Slá þarf a.m.k tvisvar á hverju sumri og gera má ráð fyrir að slá þurfi í nokkur ár. Úðun er algert neyðarúrræði þar sem eitur sem notað hefur verið er gjöreyðingarlyf sem drepur allan gróður og getur valdið verulegri mengun og skaða á öðrum lífverum.
Best er að stinga upp einstakar plöntur með rótum og fjarlægja, sem vissulega útheimtir vinnu og fyrirhöfn og er framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða.
Spánarkerfill http://floraislands.is/myrrhodo.html er önnur tegund kerfils sem er öllu meinlausari. Hann svipar til skógarkerfils en best er að þekkja muninn á bragðinu. Stilkar Spánarkerfils eru með anísbragði (lakkrís) og því er um að gera að smakka á stilkunum ef fólk er í vafa.
Sveitarfélagið er landmikið og er skógarkerfil nú að finna við vegkanta, á opnum svæðum og á lóðum og í landi í einkaeigu. Dreifing hans er áhyggjuefni en það er ekki á valdi sveitarfélagsins að stöðva þessa þróun heldur þarf samstillt átak íbúa og félagasamtaka. Byggðaráð skorar á alla sem málið varðar að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum til að hindra að þessi jurt nái frekari útbreiðslu í sveitarfélaginu.
Frekara lesefni, myndir og fræðsla er að finna m.a. á neðangreindum hlekkjum
Flóra Íslands
http://floraislands.is/anthrsyl.html
Náttúrufræðistofnun
http://www.ni.is/grodur/agengar-plontur/skogarkerfill
Skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins
https://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Lupinuskyrsla.pdf