Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur á 163. fundi sínum þann 9. nóvember 2017, samþykkt að auglýsa tillögur að breytingu tveggja deiliskipulaga og eru þær auglýstar í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Gamli miðbær í Borgarnesi – tillaga að breyttu deiliskipulagi
Breytingin felst í eftirfarandi: Íbúðarlóðirnar Brákarsund 2 og 4 falla niður. Skilgreind verður sameignarlóð, Brákarsund 2, sem tilheyrir Brákarbraut 10 og Brákarsundi 1, 3, 5 og 7, fyrir sorplausnir með djúpgámum. Lóðamörk og byggingarreitir Brákarsunds 1 og 3 hliðrast til þannig að byggingarreitur verður samliggjandi. Skilgreind verður sameignarlóð; Brákarsund 4, sem tilheyrir Brákarsundi 1 og 3 og nýtist sem bílastæði. Lóð Brákarsunds 5 stækkar um 572 m² og heimilt verður að byggja allt að 30 m² hjóla- og vagnageymslu innan skilgreinds byggingarreits. Lóð Brákarbrautar 10 stækkar um 127 m². Stærð og lega leiksvæðis breytist. Fyrirkomulag gangstétta og bílastæða við Brákarbraut breytist og verða 23 bílastæði og tvö stæði fyrir rútur. Breyting verður gerð á landfyllingu og brimvörn við friðlýsta steinbryggju til þess að bæta aðgengi að henni. Tillagan er sett fram á uppdrætti og í greinargerð dags. 3. nóvember 2017.
Helgavatn, Vatnshlíð – tillaga að breyttu deiliskipulagi
Markmið breytinganna er að hnitfesta lóðarmörk, breyta vegum í samræmi við núverandi legu og afmarka byggingarreiti frístundahúsa. Tillagan er sett fram á uppdrætti og í greinargerð dags. 8. nóvember 2017.
Skipulagstillögur liggja frammi í Ráðhúsi Borgarbyggðar, Borgarbraut 14 í Borgarnesi frá 23. nóvember til 6. janúar 2018 og verða einnig aðgengilegar á heimasíðu Borgarbyggðar, www.borgarbyggd.is
Hverjum þeim aðilum sem hagsmuna eiga að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við tillögurnar. Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar og berast í síðasta lagi 6. janúar 2018 í Ráðhús Borgarbyggðar, Borgarbraut 14, 310 Borgarnesi eða á netfangið borgarbyggd@borgarbyggd.is.
Miðvikudaginn 6. desember 2017 milli kl 17:00 og 18:00 verða starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar með opið hús í Ráðhúsi Borgarbyggðar, Borgarbraut 14 í Borgarnesi þar sem tillögurnar verða kynntar sérstaklega þeim sem þess óska.