Skemmtilegur og þarfur fundur ungmennaráðs með sveitarstjórn

febrúar 17, 2023
Featured image for “Skemmtilegur og þarfur fundur ungmennaráðs með sveitarstjórn”

Þann 16. febrúar sl. fór fram fyrsti formlegi sveitarstjórnarfundur unga fólksins, en um var að ræða sameiginlegur fundur sveitarstjórnar og ungmennaráðs Borgarbyggðar. Umræður voru líflegar, gagnlegar og skemmtilegar, en ýmis mál og málefni er snerta ungmenni Borgarbyggðar voru á dagskrá að þessu sinni.

Ungmennaráðið hafði dagskrávald á fundinum og var hann boðaður líkt og lög og reglur segja til um. Erindi fundarins voru unnin út frá ungmennaþingi sem ungmennaráðið stóð fyrir á síðasta ári. Þau málefni sem voru á meðal umræðuefna var stofnun ungmennahúss, forvarnamál, leikvellir og skólalóðir í Borgarbyggð, velferð barna og ungmenna, tómstundaakstur, öryggismál og að lokum var farið yfir störf ungmennaráðs.

Ungmennaráðið skipa þau Vilhjálmur Ingi Ríkarðsson, Ernir Daði A. Sigurðsson, Ásdís Lind Vigfúsdóttir, Marta Lukka Magnúsdóttir og Hrafnhildur Ósk Orradóttir. Óhætt er að segja að hér eru á ferðinni frábærir fulltrúar ungu kynslóðarinnar.

Fundurinn var í beinu streymi og tekin upp, því gefst íbúum tækifæri til þess að horfa á hann hér.

 


Share: