Sjálfstraust og agi

nóvember 21, 2008
Það var troðfullt hús í Óðal á fyrirlestri Jóhanns Inga Gunnarssonar sálfræðings fimmtudagskvöldið 20. nóvember. Enda var málefnið áhugavert “sjálfstraust og agi” ekki veitir okkur af að styrkja okkur í þeim málum á meðan við vinnum á efnahagsþrengingum þjóðarbúsins, eins gott að útbúa góða brynju þegar öll heimsins spjót snúa að okkur og ímynd heillar þjóðar hefur orðið fyrir álitshnekki. Handboltakappinn, rithöfundurinn og sálfræðingurinn Jóhann Ingi fór á kostum í sínum fyrirlestri og Borgfirðingar sýndu málefninu mikinn áhuga. Hann fór yfir hvað einkennir fólk með gott sjálfstraust og hvernig við byggjum upp okkar sjálfstraust og hvernig við getum haft jákvæð áhrif á sjálfstraust annarra. Tilfinningin fyrir því að geta, þora og kunna veitir ákveðna öryggiskennd .Í máli Jóhanns kom m.a. fram að hroki og mont á ekkert skylt við sjálfstraust og góða sjálfsímynd. Einnig að hógværð og gott sjálfstraust getur farið vel saman, þannig að Borgarfirðingar geta andað léttar. Uppalendur þurfa að hugleiða vel hverskonar fyrirmyndir þeir eru, það skiptir börn okkar miklu máli að foreldrar séu í góðu jafnvægi og með sjálfstraustið í lagi. Rannsóknir sína að nemendur sem trúa á sjálfan sig, t.d. að þeim muni ganga vel á prófi gera það. Jóhann Ingi sagði frá hvernig hann hafði unnið með að byggja upp sjálfstraust og sigurvilja hjá handboltastrákunum okkar í Peking síðastliðið sumar. Í lok fyrirlestursins gaf Jóhann Ingi áheyrendum möguleika að koma með fyrirspurnir. Að lokum var boðið upp á kaffi og kökur.
Það var nýstofnað svæðisráð foreldrafélaga Grunnskóla Borgarbyggðar sem stóðu fyrir dagskránni, félagið hefur fengið það frumlega nafn 4xGB. Nafnið sýnir að sjálfstraust og ímynd stjórnarmeðlima er í góðu meðallagi. Það er trú okkar að öflugt samstarfi á milli foreldrafélaga í þéttbýli og dreifbýli styrkir Borgarbyggð sem eina heild.
 
Skrifað fyrir hönd stjórna foreldrafélaganna af Ragnari Frank Kristjánssyni.
Myndir: Hanna S. Kristjánsdóttir.

Share: