Birta Rán Björgvinsdóttir heldur nú sína fyrstu ljósmyndasýningu í Safnahúsi Borgarfjarðar, en sýningin var opnuð 7. júní s.l. og stendur til loka júlí.
Þema sýningarinnar er „SJÁLFSMYND UNGLINGS“, en Birta Rán er aðeins 16 ára og var að ljúka námi úr Grunnskóla
Borgarness. Þess ber að geta að Birta Rán hefur fengið mikla hvatningu og lof frá ótal meðlimum á Flickr vefnum, sem og öðrum sem skoðað hafa myndir hennar. Slóðin á vefsvæði Birtu Ránar er http://flickr.com/photos/birtarnb/
Viðfangsefni Birtu Ránar eru af mörgum toga, en þó eru myndir af fólki yfirgnæfandi. Þar sem fyrirsætur ekki eru alltaf til staðar hefur Birta Rán notað sjálfan sig sem slíka. Hún segir það vera bestu leiðina til að prufa sig áfram og læra jafnframt á hvernig ljós og birta hefur áhrif á myndefnið.
Sýning Birtu hefur hlotið mjög góðar undirtektir gesta og verður eins og áður var sagt opin til loka júlímánaðar.