Sigfríður Björnsdóttir ráðin skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar

júní 28, 2021
Featured image for “Sigfríður Björnsdóttir ráðin skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar”

Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn sl., þann 24. júní að veita sveitarstjóra umboð til þess að ganga til samninga við Sigfríði Björnsdóttur til þess að gegna starfi skólastjóra Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

Sigfríður útskrifaðist sem grunnskóla- og tónmenntakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 1986 og með meistarapróf í sagnfræði á sviði tónlistar frá Yale háskóla í Bandaríkjunum árið 1989. Auk þess er hún að ljúka meistaragráðu frá Háskólanum á Bifröst í mennta- og menningarstjórnun.

Sigfríður hefur í tæpan áratug starfað á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og gegnt þar starfi deildarstjóra listfræðslu. Þar hefur hún meðal annars séð um samninga og samskipti við tónlistarskóla í borginni og verið yfirmaður skólahljómsveita í Reykjavík. Þar á undan var hún framkvæmdastjóri Íslenskrar Tónverkamiðstöðvar í ríflega áratug auk starfa sinna sem tónlistargagnrýnandi. Sigfríður hefur samhliða kennt tónlistarsögu og kenndi áður kennslufræði tónmenntar á Menntavísindasviði HÍ og við Listaháskóla Íslands.

Alls bárust 15 umsóknir um stöðu skólastjóra og þakkar sveitarfélagið fyrir sýndan áhuga.

Sigfríður hefur störf 1. ágúst nk. og bjóðum við hana velkomna til starfa.


Share: