Sígaunabaróninn frumsýndur

febrúar 8, 2008
Sígaunabaróninn var frumsýndur á fimmtudagskvöldið 7. febrúar í Gamla mjólkursamlaginu í Borgarnesi, eins og til stóð þrátt fyrir éljagang og skafrenning.
 
Mikil stemmning var á sýningunni og fagnaðarlæti í lok hennar.
Gestir risu úr sætum þegar leikstjórinn Ása Hlín Svavarsdóttir, stjórnandinn Garðar Cortes og píanóleikarinn Zsuzsanna Budai voru leidd fram til að hneigja sig.
 
Meðal gesta á sýningunni voru m.a. Geir Haarde forsætisráðherra og Inga Jóna Þórðardóttir kona hans, Páll Björgvinsson og Áslaug Þormóðsdóttir eigendur Gamla mjólkursamlagsins, Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar og Guðrún Ólafsdóttir kona hans. Páll Brynjarsson sveitarstjóri færði Theodóru Þorsteinsdóttur skólastjóra Tónlistarskóla Borgarfjarðar blóm og listamönnunum þakkir í lok sýningarinnar ásamt því að færa eigendum hússins að gjöf bókina Fólkið í Skessuhorni.
Gestir báru einróma lof á frammistöðu þeirra sem stóðu á sviðinu og vakti falleg lýsingin sérstaka athygli.
Uppselt er á sýningarnar á laugardaginn 9. og sunnudaginn 10. febrúar en laus sæti eru á sýningarnar 16., 17. og 19. febrúar. Allar sýningarnar hefjast kl. 20.00.
 
Ljósmynd með frétt: Olgeir Helgi Ragnarsson

Share: