Á fundi byggðarráðs þann 21. september var lagt fram sex mánaða uppgjör fyrir rekstur, sjóðstreymi og efnahag Borgarbyggðar. Haraldur Örn Reynisson, endurskoðandi frá KPMG, mætti til fundarins og skýrði út uppgjörið.
Almennt má segja að rekstur Borgarbyggðar hafi verið heldur betri en áætlað var í fjárhagsáætlun með þegar samþykktum viðaukum. Tekjur samstæðunnar (A+B) eru 1.763 m.kr. eða um 17 m.kr. lægri en áætlað var. Frávikið er fyrst og fremst vegna lægri tekna frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða sem nemur nær 60 m.kr.
Greidd laun og launatengd gjöld fyrst sex mánuði ársins eru nákvæmlega eins og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun eða rúmar 1.050 m.kr. Annar rekstrarkostnaður er mun lægri en áætlað var. Þannig er rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði jákvæð um 99 m.kr. í stað þess að áætlað var að hún væri neikvæð um 20 m.kr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnskostnaðar er rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánuði ársins neikvæð um 2,2 m.kr. í stað þess að hún var áætluð neikvæð um 81. m.kr. Þessi munur milli fyrri og seinni hluta ársins kemur fyrst og fremst til vegna þess að greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga berast yfirleitt að meiri hluta til á seinni hluta ársins. Veltufjárhlutfall í efnahagsreikningi er 1,6 sem segir að lausafé er 60% hærra en skammtímaskuldir. Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins er um 96 m.kr.
Almennt má segja að rekstur sveitarfélagsins fyrstu sex mánuði ársins sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og sé í góðu jafnvægi. Þann árangur ber ekki síst að þakka starfsfólki sveitarfélagsins sem vinnur eftir þeirri stefnu sem sveitarstjórn mótar við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni. Við vinnslu hennar er unnið eftir heildarstefnu sveitarfélagsins, „Brúin til framtíðar“ sem hefur það að meginmarkmiði að styrkja fjárhags sveitarfélagsins og auka getu þess til að bæta þjónustu við íbúana og styrkja möguleika þess til viðhalds eigna og nýfjárfestinga.