Samvera foreldra og barna mikilvægasta forvörnin

september 23, 2019
Featured image for “Samvera foreldra og barna mikilvægasta forvörnin”

Foreldrar fjölmenntu á kynningu á niðurstöðum rannsóknarinnar Ungt fólk 2019 sem haldin var í Hjálmakletti og í Grunnskóla Borgarfjarðar – Kleppjárnsreykjum þriðjudaginn 17. september sl.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari á íþróttafræðisviði HR kynnti niðurstöðurnar rannsóknanna sem gerðar eru reglulega í grunnskólum og framhaldsskólum um land allt. Þar eru kannaðir þættir í lífi barna og unglinga á borð við andlega og líkamlega heilsu og líðan, fjölskylduaðstæður, frístundaiðkun, áfengis- og vímuefnaneyslu, árangur í námi, líkamsrækt og þátttöku í íþróttastarfi og mataræði.

Helstu skilaboð niðurstaðna eru að ein áhrifaríkasta forvörnin gegn áhættuhegðun sé samvera foreldra og barna og þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi. Kennarar þurfa að hrósa nemendum oftar og gefa þeim jákvæða endurgjöf. Huga þarf að svefni barna og ungmenna og sjá til þess að þeir sofi nægilega. Einnig mætti draga úr orkudrykkjaneyslu unglinga sem hefur að öllum líkindum áhrif á svefn þeirra. Foreldrar hafa sofnað á verðinum gagnvart rafrettum og þurfa að setja börnum og ungmennum reglur um skjátíma.

Niðurstöðurnar verða nýttar innan Borgarbyggðar til að auka skilning á högum barnanna okkar og til að bæta aðstæður þeirra, heilsu og líðan.

Kynningu Margrétar Lilju má nálgast hér.

Niðurstöður könnunar um líðan nemenda í 5. – 7. bekk má nálgast hér.

Niðurstöður úr könnun um vímuefnaneyslu má nálgast hér.


Share: