Sameiginlegur starfsdagur var haldinn í skólum Borgarbyggðar sl. miðvikudag. Komu kennarar og annað starfsfólk grunnskóla saman í Hjálmakletti til að velta fyrir sér hinum ýmsu hliðum teymiskennslu. Hófst dagurinn á því að Ingvar Sigurgeirsson prófessor, sem hefur leiðbeint skólunum í vetur um teymiskennslu, hugsaði upphátt um það sem hefur mætt honum í heimsóknum hans í grunnskóla Borgarbyggðar. Erindið kallaði hann „Glöggt er gests augað“. Hann taldi upp fjölmörg áhugaverð verkefni sem unnið er að í skólunum. Má þar helst nefna útikennslu, góðgerðardaga, gleðileika, jólaútvarp, áhersla á sjálfbærnimenntun, smiðjur og áhugasviðsval. Einnig vakti Iðn – verknám á vinnustað athygli hans og taldi hann verkefnið einstakt á landsvísu.
Eftir erindi Ingvars kynntu teymi í skólunum vinnu sína og þær áskoranir og tækifæri sem kennarar sáu í teymiskennslu. Sögðu kennarar m.a. í einu teymi að mikilvægt væri að: þekkja kosti og galla samkennara sinna til þess að geta nýtt kostina í samvinnunni, sýna umburðalyndi og nýta það góða sem samkennarar hafa.
Eftir hádegi voru haldin tvö erindi, fyrst ræddi Lilja M. Jónsdóttir um þemanám og teymiskennslu og um mikilvægi þess að hafa gott skipulag á þemakennslu og nýta áhugasvið nemenda í vali á verkefnum. Þórhildur Helga Þorleifsdóttir ræddi að lokum um álitamál og áskoranir í teymiskennslu og lagði áherslu á samtal kennara og mikilvægi þess að skiptast heiðarlega á skoðunum, miðla málum og komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Almenn ánægja var meðal kennara og annars starfsfólks með starfsdaginn og ekki spillti fyrir góð skólastjórasúpa í hádeginu frá Geirabakaríi.