Samstaða um afgreiðslu fjárhagsáætlunar í sveitarstjórn Borgarbyggðar
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2018-2021 var tekin til síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar fimmtudaginn 14. Desember sl. Fjárhagsáætlunin var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum.
Í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2018 er rekstrarafgangur 113 m.kr. hjá A og B hluta sveitarsjóðs. Veltufé frá rekstri er áætlað 379 m.kr. og veltufé frá rekstri 9,7%. Svigrúm hefur skapast til að hefja langþráðar framkvæmdir og þarfar endurbætur á húsnæði leik- og grunnskóla án þess að gert sé ráð fyrir lántöku á árinu 2018. Undanfarin 3 ár hafa skuldir verið greiddar niður og engin ný lán verið tekin. Því hafa skuldir lækkað hratt og er áætlað að skuldahlutfall (A og B hluta) verði 114,9% í árslok 2018 og muni lækka áfram næstu þrjú árin. Skuldahlutfallið er því langt undir 150% viðmiðunarmörkum samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga.
Fjárhagsáætlunin ber þess einkum merki að fjármunum verður forgangsraðað í uppbyggingu skólamannvirkja, stórbætt fjarskipti í dreifbýli og nýjar götur og gangstíga. Álagningarhlutfall fasteignagjalda eru lækkað bæði hvað varðar íbúðarhúsnæði sem og atvinnuhúsnæði þannig að hækkun á fasteignamati leiðir ekki til þeirrar hækkunar sem annars hefði orðið. Með þessu vill sveitarstjórn gera fyrirtækjum kleyft að viðhalda og vonandi auka við starfsemi sína sem og fasteignaeigendur þurfa ekki að axla frekari byrðar.
Miklar framkvæmdir á næsta ári
Á árinu 2018 er ráðgert að framkvæma fyrir 564 m.kr. Stærsta einstaka framkvæmdin er viðbygging á fjölnota matsal við Grunnskóla Borgarness og endurbætur á eldra húsnæði. Útboð mun fara fram í janúarbyrjun og framkvæmdir hefjast í kjölfarið. Á framkvæmdaáætlun til fjögurra ára eru samtals 560 m.kr. fráteknar í þessa umfangsmiklu framkvæmd. Ljóst að endurmeta þarf þá fjárhæð þegar allt mat á endurbótum er komið fram sem og niðurstöður útboðs liggja fyrir. Það er verkefni sem fara verður í í janúar og febrúar á komandi ári.
Næst stærsta framkvæmdin sem ráðist verður í á árinu er flutningur leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreyki og gerir framkvæmdaáætlun ráð fyrir samtals 160 milljónum króna í þá framkvæmd sem dreifist á tvö ár.
Stærsta nýja verkefnið á framkvæmdaáætlun er lagning ljósleiðara í dreifbýli en frumhönnun og kostnaðarmati er þegar lokið. Sveitarfélagið mun leggja allt að 100 milljónum árlega í verkefnið á næstu þremur árum, samtals 300 m.kr. Hér er um að ræða verkefni sem mun hafa mikil áhrif á búsetuumhverfi í dreifbýli sveitarfélagsins. Vonir standa til að ráðist verði í sambærilegt átaksverkefni á næstunni er varðar lagningu 3 fasa rafmagns.
Auknir fjármunir verða lagðir í gatnagerð á næstu árum vegna nýrra lóða í Bjargslandi og á Hvanneyri, samtals 80 milljónir á næstu 4 árum.
Langtímalán verða greidd niður um 244 m.kr. en ekki er gert ráð fyrir nýrri lántöku á næsta ári. Afborganir skulda hafa lækkað um 30 m.kr. á þremur árum sem eykur svigrúm til þjónustu, viðhalds eða fjárfestinga.
Auk ofangreindra þátta er auknum fjármunum varið til endurbóta á ýmsum eignum, götum og gangstéttum í umsjón sveitarfélagsins.
Almennt viðhaldsfé fasteigna er verulega meira en mögulegt var á fyrri árum.
Bjart framundan
Samstarfsverkefni sveitarstjórnar Borgarbyggðar, Brúin til framtíðar, sem ráðist var í sameiginlega af allri sveitarstjórn á árinu 2015 hefur skilað þeirri stöðu að hagur Borgarbyggðar hefur ekki verið sterkari fjárhagslega allt frá því að sveitarfélagið varð til í núverandi mynd eða frá árinu 2006. Nú er lag til að styrkja innviði samfélagsins enn frekar eins og framkvæmdaáætlun ber merki.