Samkomulag um samstarf og samvinnu

desember 15, 2003
 
Borgarbyggð, Akraneskaupstaður og Borgarfjarðarsveit hafa gert
Samkomulagið undirritað
með sér samkomulag um að efla samvinnu og samstarf þessara sveitarfélaga á komandi ári. Samkomulagið sem undirritað var föstudaginn 12. desember nær til ýmissa verkefna og má þar nefna samstarf um uppbyggingu samgangna, eflingu framhaldsskóla og háskóla á svæðinu, auka samstarf safna og þrýsta á um gerð menningarsamnings fyrir Vesturland og vinna að stækkun og eflingu sveitarfélaga svo fátt eitt sé talið.
Hér að neðan er fréttatilkynning um samkomulagið.
Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit hafa þann 12. desember 2003 gert með sér samkomulag um að auka eins og kostur er samstarf og samvinnu. Í því samkomulagi er meðal annars kveðið á um eftirfarandi atriði:

  1. Sveitarfélögin eru sammála um að gera sameiginlega tillögu til samgönguráðuneytisins um uppbyggingu safnvega á svæðinu, að brýnt sé að brúa Grunnafjörð og að beita sér fyrir lagningu Sundabrautar. Þá eru sveitarfélögin sammála um að auka enn frekar jákvæð áhrif Hvalfjarðarganga og að knýja á um að ríkið stuðli með beinum hætti að því að gjaldtaka af umferð um göngin verði lækkuð.
  2. Sveitarfélögin eru sammála um að vinna eigi að stækkun og eflingu sveitarfélaga í Borgarfjarðarhéraði.
  3. Samkomulag er um að vinna að því að efla starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Viðskiptaháskólans að Bifröst og Fjölbrautaskóla Vesturlands.
  4. Aðilar eru sammála um að auka samstarf safna, þrýsta á um gerð menningarsamnings sveitarfélaganna á Vesturlandi við ríkið auk þess sem þau eru sammála að standa vörð um uppbyggingu menningarstarfsemi í Reykholti og uppbyggingu Snorrastofu.
  5. Þá er samkomulag um að vinna áfram sameiginlega að vímuvarnarmálum, skoða hvort hagkvæmt sé að reka sameiginlega tækniþjónustu og þjónustu á sviði félagsmála, kanna hvort sameiginleg útboð geti verið hagkvæmur kostur í einstökum tilvikum, kanna frekara samstarf varðandi úbætur í holræsamálum, og auka samstarf á sviði skólamála. Þá er ætlunin að kanna frekara samstarf varðandi endurmenntun starfsmanna, vinna áfram að samstarfi á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, standa saman að uppbyggingu á Grundartangasvæðinu í samvinnu við aðra sameignaraðila að Grundartangahöfn og stuðla að frekari þátttöku Orkuveitu Reykjavíkur í verkefnum í héraðinu.
  6. Sveitarfélögin eru þá sammála um að bjóða íbúum sveitarfélaganna upp á þjónustu á sviði dagvistarmála, heimilishjálpar, vinnu Vinnuskóla og þjónustu tónlistarskóla án tillits til þess í hvaða sveitarfélagi viðkomandi aðilar eiga lögheimili.

Allt er þetta gert til þess að bæta búsetuskilyrði í sveitarfélögunum og efla sveitarfélögin og gera þau betur í stakk búin til að sinna verkefnum sínum. Starfsmenn sveitarfélaganna munu annast framkvæmd einstakra verkefna en þær sveitastjórnir sem standa að samkomulaginu munu hittast einu sinni á ári og fara yfir sameiginleg hagsmunamál og skoða jafnframt frekari möguleika á auknu samstarfi.
Þá hefur Akraneskaupstaður undirritað samkomulag við Snorrastofu og Byggðsafnið að Görðum um að styðja rekstur Snorrastofu með fjárframlagi næstu þrjú ár. Snorrastofa og Byggðasafnið að Görðum munu á þeim tíma leita leiða til að auka samstarf sitt.
Gísli Gíslason, Páll BrynjarssonLinda Björk Pálsdóttir
bæjarstjóri bæjarstjóriskrifstofustjóri
AkranesiBorgarbyggð Borgarfjarðarsveit

Share: