Samkomulag milli Borgarbyggðar og Skorradalshrepps

október 3, 2007
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar, 26. september 2007, voru samþykktir samningar milli Borgarbyggðar og Skorradalshrepps í fjórum veigamiklum málum.
– Staðfest var samkomulag um slit á samstarfi um Tónlistarskóla Borgarfjarðar en þess í stað gerður þjónustusamningur vegna nemenda úr Skorradalshreppi sem stunda nám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Þjónusta við nemendur úr Skorradal verður eftir sem áður að öllu leyti með sama hætti og við nemendur Borgarbyggðar.
– Staðfest samkomulag um slit á samstarfi um Slökkvilið Borgarfjarðardala en þess í stað gerður þjónustusamningur vegna brunavarna í Skorradal. Slökkvibifreið í eigu Skorradalshrepps verður í umsjá Slökkviliðs Borgarbyggðar sem jafnframt sér um rekstur bifreiðarinnar.
– Endurnýjaður var samningur um félagsþjónustu. Íbúar Skorradalshrepps hafa sama rétt og íbúar Borgarbyggðar til að nýta sér þjónustu starfsmanna félagsþjónustu Borgarbyggðar. Þá hefur Skorradalshreppur áheyrnarfulltrúa í félagsmálanefnd þegar málefni íbúa Skorradals eru til umfjöllunar.
-Endurnýjaður var þjónustusamningur vegna vistunar barna úr Skorradalshreppi í leikskólanum Andabæ á Hvanneyri. Skorradalshreppur greiðir fyrir þessa þjónustu rekstrarkostnað vegna hvers barns til jafns við Borgarbyggð að viðbættu 20% álagi.
Mynd: Ragnheiður Stefánsdóttir

Share: