Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið tekur Borgarbyggð til umfjöllunar

ágúst 12, 2020
Featured image for “Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið tekur Borgarbyggð til umfjöllunar”

Borgarbyggð hefur borist erindi þess efnis að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið mun taka stjórnsýslu sveitarfélagsins til umfjöllunar út frá frumkvæðisreglu 112. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið hyggst skoða hvort að stjórnsýslan sé að vinna samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar, þá sérstaklega hvað varðar málshraða erinda sem berast umhverfis- og skipulagssvið sveitarfélagsins ásamt almennri leiðbeiningarskyldu stjórnvalda á umræddu sviði.

Á þessu kjörtímabili hefur þegar átt sér stað mikið úrbótarstarf á umhverfis- og skipulagssviði sveitarfélagsins, má þar helst nefna fjölgun starfsmanna á sviðinu, lagfæringu skráninga á húsum, byggingar- og skipulagsumsóknir gerðar notendavænni og fjölgun fastanefnda sem taka til umfjöllunar mál og erindi sem heyra undir umræddan málaflokk. Ofanálagt hefur verið farið í umfangsmikla ferlagreiningu á umhverfis- og skipulagssviði en í þeirri vinnu er verið að skoða ítarlega þjónustu sveitarfélagsins og greina hvort og þá hvar þurfi að gera fleiri breytingar til úrbóta. Athugasemdirnar frá ráðuneytinu rýma við ofangreindu úrbótavinnu. 

Öllum ábendingum er vel tekið og það er vilji til þess að gera enn betur og halda áfram úrbótavinnunni að fullum krafti. Ljóst er að slíkt verkefni tekur tíma en reynt verður eftir bestu getu að flýta fyrir þeirri vinnu. Það er í gangi endurskoðun á stjórnskipulagi sveitarfélagsins og skipurit þess þar sem haft verður að leiðarljósi hvernig bæta megi stjórnsýsluna, málshraða og leiðir til að bæta leiðbeinandi hlutverk sveitarfélagsins.

Borgarbyggð hefur sett sig í samband við ráðuneytið og mun að sjálfsögðu sýna fullan samstafsvilja til þess að bæta stjórnsýslu sveitarfélagsins. 


Share: