Sameiginlegt námskeið fyrir starfsfólk leikskóla Borgarbyggðar

september 18, 2017
Featured image for “Sameiginlegt námskeið fyrir starfsfólk leikskóla Borgarbyggðar”

Kennarar og annað starfsfólk leikskóla Borgarbyggðar stóðu saman að námskeiði um málörvun barna. Námskeiðið var einnig opið fyrir kennara og annað starfsfólk grunnskóla. Námskeiðið var haldið í Hjálmakletti á starfsdegi skólanna þann 15. september sl.

Eyrún Ísfold Gísladóttir talmeinafræðingur kynnti kennsluefnið „Lubbi finnur málbein“, en Lubbi er íslenskur fjárhundur sem vill ólmur læra að lesa og skrifa. Til að ná því marki þarf hann að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir í Hljóðasmiðju Lubba, t.d. að mynda málhljóðin alveg rétt og tengja þau saman, klappa atkvæði, ríma, leita uppi bókstafi, raða málbeinum saman í orð, lesa orðin og svara skemmtilegum spurningum. Við það fær hann aðstoð barna í leikskólunum sem hjálpa honum að leysa þrautirnar.

Lögð er áhersla á góðar málfyrirmyndir sem skipta höfuðmáli, m.a. er varðar ríkan orðaforða og skapandi notkun málsins. Kennsluefnið byggir að stórum hluta á doktorsrannsóknum Þóru Másdóttur um hljóðþróun ungra barna.

Námskeiðið er liður í innleiðinguLestrarstefnu Borgarbyggðar sem unnið verður að á næstu árum. Það verður gert í anda hugmyndafræði lærdómssamfélagsins en þá er gert ráð fyrir að fólk deili hugmyndum, reynslu og þekkingu sem styður við starfsþróun kennara með árangur og vellíðan barna að leiðarljósi.


Share: