Ljósleiðaramál í Borgarbyggð

september 15, 2017
Featured image for “Ljósleiðaramál í Borgarbyggð”

Lagning ljósleiðara í dreifbýli Borgarbyggðar

Unnið hefur verið að lagningu ljósleiðara um dreifðar byggðir Íslands á undanförnum árum í tengslum við verkefni ríkisstjórnarinnar „Ísland ljóstengt“. „Ísland ljóstengt“ er landsátak í uppbyggingu ljósleiðarakerfa í dreifbýli utan markaðssvæða. Markmiðið er að 99,9% þjóðarinnar eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar tók ákvörðun á síðasta ári að hefja undirbúningsvinnu við þetta mikla verkefni. Guðmundur Daníelsson ráðgjafi var ráðinn til að annast ákveðna undirbúningsvinnu, hanna ljósleiðarakerfi í sveitarfélaginu og annast ákveðna undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er þegar hafist er handa við undirbúning svo umfangsmikils verkefnis. Hönnun ljósleiðarakerfis fyrir Borgarbyggð er lokið. Alls eru formlegir tengipunktar yfir 500 í dreifbýli Borgarbyggðar. Undir það flokkast heimili með fasta búsetu í dreifbýli, fyrirtæki og aðrir staðir sem þurfa slíka tengingu s.s. fjarskiptastaðir, virkjanir, dælustöðvar og önnur álíka starfsemi. Ljósleiðarakerfið í sveitarfélaginu verður nálægt 600 km. Hér er því um að ræða eitt stærsta samfellda verkefni á landinu af þessu tagi. Þar fyrir utan eru rúmlega 1.200 talsins sumarbústaðir í sveitarfélaginu sem koma líklega með að tengjast ljósleiðaraskerfinu í töluverðum mæli sé miðað við reynslu annarra sveitarfélaga.

Lagning ljósleiðara í hvern tengipunkt í dreifbýli er fjármögnuð á þrennan hátt. Hluti kostnaðar er fjármagnaður með styrkjum frá Fjarskiptasjóði, hluti er fjármagnaður með greiðslu frá þeim sem taka tengingu heim og hluti er fjármagnaður með framlagi sveitarfélagsins. Árlegt afnotagjald rennur síðan til að endurgreiða það fjármagn sem sveitarfélagið hefur lagt til verksins á einhverjum árafjölda (ca 10 árum). Þeir sem taka ljósleiðara í sumarhús greiða allan kostnað af því sjálfir (njóta t.d. ekki styrks úr Fjarskiptasjóði). Fjarskiptasjóður styrkir heldur ekki tengingar sem eru frágengnar áður en styrkurinn er veittur.

Styrkur fékkst sl. vetur úr Fjarskiptasjóði til að leggja ljósleiðara í 12 tengipunkta í Andakíl á þessu ári. Innan skamms verður ákveðið hverjir það verða. Einnig fékkst styrkur upp á rúmar 12,0 m.kr. frá Byggðasjóði til þessa verkefnis í ársbyrjun. Það voru vonbrigði að ekki hafi fengist styrkur til að vinna stærra verkefni á þessu ári. Vonir standa hins vegar til að í næstu úthlutun Fjarskiptasjóðs, sem fer fram í október n.k., fáist styrkur til að vinna að umtalsvert stærri áfanga. Í sumar hafa verið lagðir um 25 km af rörum í Reykholtsdal og nágrenni með rafstrengjum sem Rarik hefur lagt í jörð. Það er gert til að flýta fyrir verkinu og sparar einnig fjármuni.

Stefnt er að því að ljúka þessu mikla verkefni eigi síðar en á árinu 2020. Til að það gangi eins og best verður á kosið þarf að undirbúa verkefnið vel, kynna það vel fyrir öllum hlutaðeigandi, tryggja gott samstarf við landeigendur um lagnaleið þar sem það á við og hafa tryggt að farið sé eftir öllum lögum og reglum sem málið varðar.

 

Staða ljósleiðaramála í þéttbýli Borgarbyggðar.

Árið 2015 var skrifað undir samkomulag milli Borgarbyggðar og Gagnaveitu Reykjavíkur um að Gagnaveita Reykjavíkur myndi leggja ljósleiðara í þéttbýli Borgarbyggðar, Borgarnes og Hvanneyri. Verkinu skyldi lokið á árinu 2018. Fram til þessa hefur verkinu ekki þokað mikið áfram svo sýnilegt er og kemur margt til. Þó hefur ýmislegt gerst og margt í undirbúningi. Ljósleiðari hefur verið lagður í alla skurði sem hafa verið grafnir í Borgarnesi. Kveldúlfsgatan er t.d. frágengin. Búið er að semja um afnot Gagnaveitunnar af aðstöðu í Íþróttamiðstöðinni þar sem sett verður upp miðstöð fyrir ljósleiðarakerfið í Borgarnesi. Vinna við uppsetningu hennar er að hefjast svo og tenging stöðvarinnar við lagnakerfið. Gagnaveitan er síðan að hefja frekari framkvæmdir í Borgarnesi þannig að sjá má þess merki innan tíðar að kominn sé aukinn þungi í framkvæmdir. Ekkert hefur verið unnið á Hvanneyri enn sem komið er en Gagnaveitan stefnir að því að ljúka lagningu ljósleiðara í Borgarnes og Hvanneyri fyrir árslok 2018.

 

 

 


Share: