Sagnakvöld í Safnahúsi Borgarfjarðar

nóvember 12, 2013
Sagnakvöld Safnahúss Borgarfjarðar verður að þessu sinni haldið miðvikudaginn 13. nóvember. Í ár verður lesið upp úr tveimur bókum sem báðar tengjast Andakílnum, annars vegar Frá hestum til hestafla eftir Bjarna Guðmundsson safnamann á Hvanneyri og hins vegar bók Braga Þórðarsonar: Snorri á Fossum. Í lok dagskrár munu Bjarni og Snorri taka nokkur lög, en þeir eiga margháttað samsöngsafmæli um þessar mundir.
Sagnakvöld Safnahúss hafa notið mikilla vinsælda, en þar er gjarnan tekið fyrir sýnishorn af nýútkomnu efni sem tengist Borgarfjarðarhéraði.
Dagskráin verður á neðri hæð Safnahúss og hefst kl. 20.00. Höfundar lesa upp úr bókunum tveimur og að lokinni dagskrá verður kaffisopi og meðlæti á boðstólum. Fulltrúar Uppheima og Sölku verða á svæðinu og höfundar árita. Ennfremur verður gestum boðið að skoða fjórar sýningar sem eru til staðar í Safnahúsi núna: Börn í 100 ár, Ævintýri fuglanna, minningarsýningu um Hallstein Sveinsson og nýja örsýningu um húsið Dalbrún í Borgarnesi.
 
Nánar
Frá hestum til hestafla er þriðja bók Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri sem fjallar um íslenskan landbúnað og sögu hans. Hinar fyrri, . . . og svo kom Ferguson og Alltaf er Farmall fremstur, hafa notið mikillar hylli, enda rekur höfundur sögu íslensks samfélags út frá framvindu í landbúnaði á fróðlegan og skemmtilegan hátt með frábæru myndefni.
Í þessari bók segir Bjarni sögur af vinnuhestum og hestanotkun við bústörf, fyrstu dráttarvélinni sem til Íslands kom – Akranesstraktornum svonefnda, Lanz-þúfnabananum og loks af landbúnaðarjeppunum, Willys og Land Rover. Þá rifja átta einstaklingar upp minningar sínar frá þessum breytingatímum. Bókin er gefin út af Uppheimum í samstarfi við Landbúnaðarsafn Íslands.
Snorri Hjálmarsson bóndi á Fossum er upprunninn í Aðalvík á Hornströndum en fluttist í Andakílinn eftir uppvöxt og skólagöngu í Reykjavík og á Hvanneyri. Hann fékk mikla söngrödd í vöggugjöf, lærði söng og hefur oft glatt héraðsbúa með söng sínum. Á undanförnum árum hefur hann einnig getið sér orð fyrir að vera „hjálpari“, þ.e. finna vatn í jörðu með spáteinum, sjá fyrir sér óorðna hluti og veita hjálp í veikindum og öðrum erfiðleikum fólks.
Hinn góðkunni sagnamaður Bragi Þórðarson segir í þessari bók sögu Snorra sem er allt í senn – fróðleg, umhugsunarverð og bráðskemmtileg. Bókin er gefin út af Sölku. Hún er 20. bók Braga, en skrif hans um íslenskt þjóðlíf á fyrri tíð hafa notið mikilla vinsælda.
 

Share: