Sagnakvöld í Safnahúsi

nóvember 19, 2012
Sagnakvöld Safnahúss Borgarfjarðar verður haldið þriðjudaginn 20. nóvember og hefst kl. 20.00, þar verður lesið upp úr tveimur nýjum bókum og spjallað um vísur. Tveir höfundar lesa þar úr bókum sínum. Ólafur Steinþórsson les upp úr bók sinni Urðarmána og Böðvar Guðmundsson les úr Töfrahöllinni, nýrri skáldsögu sinni. Á dagskránni er einnig óformlegt vísnaspjall þar sem þrír af þekktustu hagyrðingum Borgarfjarðar koma við sögu.
Það eru þau Dagbjartur Dagbjartsson, Helgi Björnsson og Þórdís Sigurbjörnsdóttir sem spjalla um vísur og sögur tengdar þeim.
 
Fólk er boðið velkomið að koma og njóta góðar sagnastundar á neðri hæð Safnahúss, í sal sýningarinnar Börn í 100 ár.
Sagnakvöld Safnahúss hafa nú verið haldin í nokkur ár við miklar vinsældir. Þar er fjallað um bækur sem tengjast Borgarfirði og nágrenni auk annarra bókmenntatengdra dagskrárliða.Ólafur Steinþórsson var búsettur í Borgarnesi í fjöldamörg ár en fluttist til Reykjavíkur árið 2005. Hann ólst upp í Breiðafirði sem er vettvangur Urðarmána eins og fyrri bókar hans sem hét Ferð til fortíðar og kom út árið 1995. Böðvar Guðmundsson hefur sent frá sér fjölda bóka, bæði ljóð og sögur. Hann er fæddur og uppalinn á Kirkjubóli í Hvítársíðu en er búsettur í Danmörku. Bók hans að þessu sinni er skáldsaga þar sem sérkennilegt lífshlaup Jóseps Malmholms er rakið og stórskemmtilegar söguhetjur stíga á svið.
 

Share: