Saga Borgarness í 150 ár

mars 21, 2017
Featured image for “Saga Borgarness í 150 ár”

Saga Borgarness í 150 ár.

Þann 22. mars 2017 eru 150 ár síðan Borgarnes fékk verslunarréttindi. Á afmælisdaginn verður sveitarstjórn Borgarbyggðar með hátíðarfund kl. 15:00 í Kaupangi sem er elsta hús bæjarins. Í tilefni dagsins verður tekin skóflustunga að viðbyggingu við Grunnskólann í Borgarnesi að loknum hátíðarfundi sveitarstjórnar. Á afmælisdaginn verður opnuð ljósmyndasýningin „Tíminn gegnum linsuna“ kl. 17:00 í Safnahúsi Borgarfjarðar þar sem saga Borgarness í nær 100 ár verður rakin í gegnum myndavélarlinsur fjögurra Borgnesinga.

Þann 29. apríl n.k. verður haldin hátíðarsamkoma í Hjálmakletti þar sem íbúum sveitarfélagsins verður boðið til samsætis. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður heiðursgestur samkomunnar.

Í tilefni afmælisins stóð sveitarstjórn Borgarbyggðar fyrir ritun á Sögu Borgarness. Egill Ólafsson, blaðamaður og sagnfræðingur hóf ritun verksins í ársbyrjun 2014. Við andlát Egils í ársbyrjun árið 2015 var Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur ráðinn til að taka við verkinu og ljúka því.

Saga Borgarness er tveggja binda verk „Byggðin við Brákarpoll“ og „Bærinn við brúna“. Sagan telur nær 1000 blaðsíður með á sjötta hundrað mynda. Sagan er rituð í læsilegum og léttum frásagnarstíl þar sem komið er inn á flest það sem hæst hefur borið í 150 ára sögu samfélagsins. Nefna má sem dæmi atvinnumál, sveitarstjórnarmál, menningarmál, verslun og viðskipti, skólamál, íþróttir, samgöngur, vaxtarskeið og varnarbaráttu og þannig mætti áfram telja.

Saga Borgarness verður formlega gefin út á 150 ára afmælishátíð Borgarness í Hjálmakletti þann 29. apríl n.k. Fram að þeim tíma verður hún seld í forsölu. Umf. Skallagrímur annast forsöluna og mun meðal annars ganga í hvert hús í Borgarnesi. Hægt er að panta bókina í s: 844-8639 eða með því að senda póst á sagaborgarness@gmail.com

(mynd: Sunna Gautadóttir)


Share: