Sigurjón Einarsson náttúrufræðingur og ljósmyndari heldur fyrirlestur um fugla í Hallsteinssal í Safnahúsi kl. 19.30 fimmtudaginn 12. september n.k. Erindi hans tengist fagsviði Náttúrugripasafns Borgarfjarðar og er um fugla í borgfirskri náttúru með ljósmyndum sem sýndar verða um leið. Vistgerðir í Borgarfirði er margar og þar er breiða fuglafánu að finna og verður fróðlegt að heyra innlegg Sigurjóns um þetta verðuga efni.
Sigurjón starfar sem náttúrufræðingur hjá Landgræðslunni, með mikinn áhuga á fuglum. Hann er frá Hafnarfirði en hefur undanfarin 20 ár verið búsettur í Borgarfirði. Fallegar ljósmyndir hans af fuglum hafa vakið mikla athygli.
Sigurjón hefur áður unnið ýmis verkefni fyrir Safnahús. Hann á t.d. ljósmyndir á grunnsýningunni Ævintýri fuglanna og var með sýningu í Hallsteinssal fyrir nokkrum árum þar sem hann sýndi ljósmyndir frá vetrarveiði refaveiðimanna á Borgarfjarðarsvæðinu.
Fyrirlestur Sigurjóns tekur um klukkustund og á eftir verður spjall og heitt á könnunni. Aðgangur er ókeypis en söfnunarbaukur er á staðnum fyrir þá sem vilja leggja safnastarfseminni lið.