Dagana 25. – 28. október verður hægt að sjá heimildamynd Óskars Þórs Óskarssonar um Sæmund Sigmundsson í Safnahúsi Borgarfjarðar. Einnig verður hægt að hlusta á lög af nýjum hljómdiski Þorvaldar Jónssonar (Valda) í Brekkukoti. Þetta er gert af því tilefni að næstkomandi fimmtudag, 28. október, verður sagnakvöld í Safnahúsi helgað Sæmundi og Valda. Þá verður lesið upp úr nýrri bók Braga Þórðarsonar um Sæmund og Valdi flytur nokkur lög af diskinum sínum.
Myndin, sem sýnd verður í Safnahúsi er látin ganga þar þessa daga með góðfúslegu leyfi Óskars Þórs, sem unnið hefur ómetanlegt starf í heimildakvikmyndum í Borgarfirði. Í myndinni má sjá síðustu áætlunarferð Sæmundar sem farin var í árslok 2005, en þá hætti Sæmundur með sérleyfið á leiðinni Borgarnes/Reykjavík, en það leyfi var hann þá búinn að hafa á hendi í rétt tæp fimmtíu ár.
Sagnakvöldið í Safnahúsi hefst kl. 20.00 fimmtudaginn 28. október og verður á neðri hæð hússins.
Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir