Hin árlega Reykholtshátíð verður haldin dagana 23 – 27 júlí í kirkjunni í Reykholti. Í ár hefst hátíðin á tónleikum karlakórs St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu sem heldur þrenna tónleika á hátíðinni. Kórinn sem heldur á lofti hinni áhrifamiklu rússnesku karlakórahefð hefur getið sér gott orð víða um heim.
St. Basil kórinn flytur m.a. rússnesk þjóðlög, miðaldatónlist og lög eftir rússnesk tónskáld.
Á laugardeginum kemur fram hinn þekkti bandaríski tenór Donald Kaasch ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara. Kaasch kom fram á Reykholtshátíðinni 2005 og söng þá íslensk sönglög með sínum ógleymanlega hætti.
Á laugardagskvöld leikur kammerhópur Virtuosi di Praga frá Tékklandi en á dagskránni eru ýmis verk m.a. eftir Mozart og Samuel Barber. Margir þekktir einsöngvarar og einleikarar hafa komið fram ásamt Virtuosi di Praga, t.d. Rostropovich, Domingo og Oistrach.
Reykholtshátíðin endar á stórtónleikum á sunnudeginum. Þá koma fram m.a. Auður Hafsteinsdóttir á fiðlu, Pálína Árnadóttir á fiðlu, Þórunn Ósk Magnúsdóttir á víólu, Steinunn Birna Ragnarsdóttir á píanó og Bryndís Halla Gylfadóttir á selló. Á efnisskrá eru verk eftir Handel og hinn þekkti píanókvintett í Adúr op 81 eftir Dvorák.
Reykholt í Borgarfirði er einn merkasti sögustaður Íslands og um að gera að gefa sér tíma til að skoða þetta gamla höfuðból. Þar bjó Snorri Sturluson frá 1206 þar til hann var veginn árið 1241. Í Reykholti er Snorralaug, elsta heita laug landsins. Þar er einnig rekin Snorrastofa, sem er miðstöð rannsókna í miðaldafræðum.
Sjá nánar á www.reykholtshatid.is
Meðfylgjandi mynd er af Karlakór St. Basil-dómkirkjunnar í Moskvu.