Reykholtshátíð 23.-25. júlí

júlí 21, 2021
Featured image for “Reykholtshátíð 23.-25. júlí”

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er sígild tónlist í sögulegu umhverfi og lýsir vel inntaki hennar og áherslum. Sveitasælan í Reykholti og fagur hljómburður Reykholtskirkju veitir bæði áheyrendum og tónlistarmönnum tækifæri til að upplifa hágæða tónlistarflutning á einum sögufrægasta stað Íslands.

Dagskráin í ár samanstendur af fjórum tónleikum, fjölbreytt og skemmtileg efnisskrá og frábærir músíkantar, bæði tíðir gestir á Reykholtshátíð sem hafa sumir hverjir fylgt hátíðinni frá upphafi og aðrir sem eru að koma í fyrsta sinn fram á hátíðinni í ár.

Kammerperlur eftir m.a. Brahms, Schubert og Glazunov og sönglög og aríur. Í tilefni afmælisársins verður frumflutt nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýr við ljóð Þorsteins frá Hamri sem var ættaður úr Borgarfirðinum fagra. Fyrirlestur um ljóðskáldið Þorstein frá Hamri verður í boði Snorrastofu á laugardeginum sem er öllum opinn. Fyrirlesari er Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur

 

Reykholtshátíð er jafnframt vígsluafmæli Reykholtskirkju og því verður fagnað með hátíðarmessu á sunnudeginum. Á tónleikunum á sunnudeginum verður Steinunn Birna Ragnarsdóttir sérstakur gestur en hún var upphafskona þessarar tónleikahátíðar í Reykholti í tengslum við vígsluafmæli kirkjunnar.

 

Hátíðarpassi á alla hátíðina er á aðeins 10.500 krónur.

 

Hægt er að kynna sér dagskrána á www.reykholtshatid.is en þar er líka hægt að nálgast miðasölu, bæði fyrir staka miða og hátíðarpassann.

 

 

 

 


Share: