Rekstrartruflanir á Vesurlandi

janúar 30, 2008
Skerða hefur þurft afhendingu á heitu vatni á Akranesi og í Borgarnesi frá því á mánudag. Þetta var gert í öryggisskyni eftir að vatnsborð í heitavatnsgeymum hafði lækkað mjög í kjölfar rekstrartruflana um síðustu helgi.

Ekki er útilokað að til frekari skerðinga komi næstu daga. Bæjarfélögin sjálf, sem reka m.a. sundlaugarnar, og Laugafiskur, þar sem skerðingarheimildir eru í samningum, hafa orðið fyrir skerðingunni. Óvíst er hvort ástandið kemur til með að bitna á almennum notendum.

Stöðuna nú má rekja til rafmagnsleysis í óveðrinu um síðustu helgi. Þá stöðvuðust dælur og í kjölfarið lækkaði mjög í hitavatnsgeymum. Eftir að dælur fóru af stað brast aðalæð sem leiddi til þess að vatnsborð í tönkum lækkaði enn frekar. Nú er verið að fylla á þá og á vatnsborð að verða viðundandi undir kvöld.

Gríðarleg uppbygging hefur verið á Vesturlandi síðustu ár og hefur það kallað á aukna notkun á heitu vatni. Á Akranesi einu hefur t.a.m. aukningin numið 37% frá árinu 2000.

Akurnesingar og Borgnesingar fá vatn úr Deildartunguhver og fleiri jarðhitasvæðum í héraðinu um lögn sem komin er til ára sinna. Hún er í eigu Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB), sameiginlegs fyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur og ríkisins. Dælugeta á lögninni annar ekki lengur eftirspurn við langvarandi álagstoppa. Næsta sumar verður byggð dælustöð við lögnina sem tryggja mun verulega aukna flutningsgetu hennar.

Forstjóri Orkuveitunnar og nýr stjórnarformaður OR auk framkvæmdastjóra HAB áttu í dag fund með sveitarstjórnarfólki frá Akranesi og Borgarbyggð og fóru yfir stöðuna.
 


Share: