Regnbogaveggur í Borgarnesi

júlí 15, 2020
Featured image for “Regnbogaveggur í Borgarnesi”

Glöggir vegfarendur hafa eflaust tekið eftir því að steinveggurinn sem liggur meðfram Brúartorg í Borgarnesi er nú í litum regnbogafánans. Það eru vinnuskólabörnin í Borgarnesi sem eiga frumkvæðið að þessu frábæra verkefni en fyrr í sumar var þeim  falið að koma með tillögur um hvernig hægt sé að bæta nærumhverfið.

Krökkunum fannst tilvalið að lífga upp á Brúartorg og svæðið þar í kring ásamt því að fagna fjölbreytileikanum. Þegar sveitarfélagið og svæðisstjóri N1 í Borgarnesi gáfu grænt ljós á verkefnið var ekkert að vanbúnaði en að hefjast handa. Hópurinn fékk frábært veður og því vannst verkið vel og á stuttum tíma.

Rendurnar á veggnum eru ekki sterílar og bylgjast því á skemmtilegan hátt, það minnir okkur á að við erum öll allskonar og að hægt sé að sjá fegurðina í ófullkomleikanum. Fordómar og mismunun hafa margvísleg neikvæð áhrif á heilsu og líðan fólks og á ekki undir neinum kringumstæðum að líðast í okkar samfélagi. Borgarbyggð fagnar fjölbreytileikanum og alla þá kosti sem það hefur í för með sér og samþykkir alla eins og þeir eru.

Gaman er að segja frá því að þetta verkefni er ekki einsdæmi en það er margt spennandi í bígerð hjá Vinnuskólanum. Fleiri áhugaverðir veggir og vegvísar munu líta dagsins ljós í Borgarnesi áður en að sumri lýkur.

Að lokum vilja flokkstjórar vinnuskólans koma á framfæri hrós til krakkana fyrir einstaklega vel unna vinnu og þau eiga heiður skilið fyrir dugnaðinn í sumar.


Share: