Markaðsstefnumótun Borgarbyggðar

júlí 15, 2020
Featured image for “Markaðsstefnumótun Borgarbyggðar”

Fyrr í júní var markaðsstefnumótun Borgarbyggðar kynnt fyrir íbúum á fundi í Hjálmakletti. Vakin er athygli á því að enn er hægt að horfa á fundinn inn á Facebook-síðu sveitarfélagins og kynna sér málefnið.

Á fundinum var farið yfir verkefnið sjálft og niðurstöður þess en þær eru byggðar á vitnisburðum frá íbúum og fyrirtækjaeigendum í sveitarfélaginu sem og viðhorfskönnun sem einstaklingar utan Borgarbyggðar svöruðu.

Enn fremur var kynnt til leiks slagorð sveitarfélagins sem er …bíður þín í Borgarbyggð. Íbúar og aðrir áhugasamir geta sótt sér ramma inn á Facebook-síðu sveitarfélagins til að setja í forsíðumynd. Þess má geta að Instagram-reikningur sveitarfélagsins hefur verið opnaður þar sem unnið verður áfram með slagorðið. Allir eru hvattir til þess að taka þátt í þessu verkefni með sveitarfélaginu og geta haft samband við Maríu Neves fyrir frekari upplýsingar.

Vinnan við markaðsstefnumótunina hófst síðasta haust og er unnin af auglýsingastofunni Manhattan sem mun vera sveitarfélaginu innan handar í innleiðingarferlinu. Byggðarráð skipaði stýrihóp á síðasta fundi sínum sem fór fram 9. júlí s.l. Stýrihópurinn mun leiða áframhaldandi vinnu og samanstendur af Þórdísi Sif Sigurðardóttur, sveitarstjóra, Maríu Neves, verkefnastjóra, Lilju Björgu Ágústsdóttur, forseta sveitarstjórnar, Guðveigu Lind Eyglóardóttur, sveitarstjórnarfulltrúa og Haraldi Daða Ragnarssyni frá Manhattan.

Markaðsstefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir Borgarbyggð má finna hér.


Share: