Næstkomandi fimmtudag 11. júní sýnir leikhópurinn Lotta leikritið Rauðhettu í Skallagrímsgarði í Borgarnesi og hefst sýningin klukkan 18:00. Sýnt er utandyra og er því um að gera að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á og hlýja sér ef kalt er.
Verkið skrifaði Snæbjörn Ragnarsson og er það byggt á klassísku ævintýrunum um Rauðhettu og úlfinn, Hans og Grétu og Grísina þrjá. Sögurnar eru fléttaðar saman á nýstárlegan og skemmtilegan hátt svo úr verður stærðarinnar ævintýr. Snæbjörn hefur einnig samið lög fyrir verkið ásamt bróður sínum Baldri og Gunnari Ben.