Menningarráð Vesturlands og Háskólinn á Bifröst boða til ráðstefnu um menningu á Vesturlandi næstkomandi laugardag þann 14. október frá kl. 10-16. Á ráðstefnunni mun m.a. Njörður Sigurjónsson , doktorsnemi við City University í London og lektor við Háskólann á Bifröst halda fyrirlestur og stýra umræðum undir nafninu: Menning, spenning – fyrir hvern? Kjartan Ragnarsson fjallar um stofnun og rekstur Landnámssetursins. Bárður Örn Gunnarsson , markaðsstjóri VÍS mun fjalla um af hverju fyrirtæki eigi að styrkja menningu og Elísabet Haraldsdóttir, mun kynna Menningarráð Vesturlands.
Tónlist, myndlist og listhandverk verður einnig stór hluti ráðstefnunnar og verða styrkþegar Menningarráðs Vesturlands þar áberandi. Nemendur úr Grundaskóla á Akranesi flytja tónlist en þau hlutu styrk fyrir verkefnið Ungur gamall. Þá mun Elísa Vilbergsdóttir, sópransöngkona, flytja nokkur lög við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur frá Borgarnesi sem einnig hlaut styrk úr sjóðnum. Þess má geta að Elísa kemur sérstaklega frá Þýskalandi vegna þessa viðburðar. Kjartan Ragnarsson sem kynnir Landnámssetrið í Borgarnesi og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir hlutu hæsta styrk Menningarráðs vegna Landnámssetursins.
Myndlista- og listhandverksmenn munu halda sýningu samhliða ráðstefnunni: Páll Guðmundsson frá Húsafelli, Lára Gunnarsdóttir úr Stykkishólmi, Snjólaug Guðmundsdóttir frá Brúarlandi, Dýrfinna Torfadóttir frá Akranesi, Ingibjörg Ágústsdóttir frá Stykkishólmi og Sigríður Erla Gunnarsdóttir sem kynnir verkefni unnin úr Búðardalsleir.
Málþingið hefst kl.10.00 til 16.00 og er opið öllu áhugafólki um menningu. Ráðstefnugjald er 2.500 kr. og innifalið er hádegismatur og kaffi.
Skráning fer fram á heimasíðu Bifrastar www.bifrost.is, á netfanginu bifrost@bifrost.is eða í síma 433 3000.
Nánari upplýsingar veitir Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi Vesturlands í síma 8925290 eða á menning@vesturland.is