Ráðhúsið opnar á morgun, 25. febrúar

febrúar 24, 2021
Featured image for “Ráðhúsið opnar á morgun, 25. febrúar”

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis að draga úr samkomutakmörkunum frá og með deginum í dag, 24. febrúar. 

Takmörkun á fjölda einstaklinga sem koma saman miðast nú við 50 manns, hvort sem er í einkarýmum eða í opinberum rýmum. Nálægðarmörkin verða áfram tveir metrar.

Vakin er athygli á því að það er grímuskylda í öllum stofnunum Borgarbyggðar og eru íbúar og aðrir gestir beðnir um að virða það. 

Þessar aðgerðir gilda til og með 17. mars n.k. 

Eftirfarandi breytingar taka gildi í Borgarbyggð frá og með morgundeginum 25. febrúar. 

Íþróttamiðstöðvar 

  • Sundstaðir eru opnir með breyttu sniði en nú er heimilt að taka við 75% af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. 

  • Skipulagðir hóptímar í sal og líkamsræktarstöðinni eru leyfðir með ströngum skilyrðum. Í hverjum hóp mega vera að hámarki 50 manns á fyrir fram ákveðnum tímum sem ákveðnir  eru í samráði við forstöðumann íþróttamiðstöðva. 

  • Hámarksfjöldi í líkamsræktarstöðinni eru 50 manns hverju sinni. Iðkendur eru beðnir um að skrá sig í afgreiðslu og sækja sér teygju. Auk þess skulu iðkendur útskrá sig í afgreiðslu og skila teygjunni. Hver tími er að hámarki 60 mínútur og viðvera hvers iðkanda í húsi er aldrei lengri en 90 mínútur. Iðkendur skulu sótthreinsa sinn búnað eftir notkun.  

Brot á sóttvarnarreglum felur í sér tafarlausan brottrekstur úr Íþróttamiðstöðinni. 

Safnahúsið 

  • Starfsemi verður með hefðbundnum hætti en gætt verður að fjöldatakmörkunum sem miðast við 200 einstaklinga í senn. 

  • Starfsfólk mun gæta þess að sótthreinsa reglulega sameiginlega snertifleti. 

Félagsþjónusta aldraða 

  • Starfsemin hefst að nýju og unnið er að því að setja upp dagskrá. Hún verður auglýst síðar.

  • Vakin er athygli á mikilvægi þess að skrá sig í hádegismat. 

Ráðhúsið 

  • Ráðhúsið opnar á ný fyrir almenning með breyttu sniði.  

  • Íbúar og aðrir gestir þurfa nú fyrir fram að panta viðtal við byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og félagsþjónustuna. Símatímar skipulags- og byggingarfulltrúa eru mánudaga til fimmtudaga frá kl. 09:30-11:30.  

Borgarbyggð vill minna íbúa á að öflugasta vörnin við veirunni er að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Mikilvægt er að þvo sér um hendurnar reglulega, spritta, halda tveggja metra fjarlægð, vera með grímur og halda sig heima ef einkenni gera vart við sig. 

Ef það leikur grunur á smiti skal strax hafa samband við heilsugæsluna í gegnum síma, við netspjall Heilsuveru.is eða við Læknavaktina í síma 1700. Heilbrigðisstarfsfólk ráðleggur ykkur með næstu skref. 


Share: