Play Iceland í heimsókn í Uglukletti

nóvember 1, 2017
Featured image for “Play Iceland í heimsókn í Uglukletti”

Dagana 23. og 24. október komu gestir í leikskólann Ugluklett. Voru það átta kennarar frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Bretlandi. Tilgangur heimsóknarinnar var að skoða hvernig börnin í Uglukletti læra í gegnum leikinn og nýta til þess umhverfi sitt.  Kennararnir er hluti af hóp sem kallar sig Play Iceland en það er hreyfingin sem samanstendur af alþjóðlegum hópi kennara og skólastjóra sem vinna að því að að efla meðvitund um mikilvægi þess að börn á leikskólaaldri fá tækifæri til að vera í tengslum við náttúruna og læra í gegnum frjálsan leik. Tækifæri sem kennararnir upplifa að tilheyri fortíðinni í sínum samfélögum þar sem áherslur á bóklegt nám eru miklar í námi ungra barna. Kennararnir koma til Íslands og heimsækja nokkra leikskóla og í ár var leikskólinn Ugluklettur svo heppin að fá að vera með. Ásamt því að skoða leikskólana er lögð áhersla á samræðu og ígrundun meðal kennaranna um starfsaðferðir íslenskra leikskóla.

Kennararnir sem heimsóttu Ugluklett byrjuðu á því að mæta í útikennslustofuna okkar sem er í skátahúsinu við Skallagrímsgötu, þar sem tveir elstu árgangarnir í Uglukletti skiptast á að koma í litlum hópum og eru viku í senn. Þar geta börnin nýtt umhverfið í neðri bænum til þess að rannsaka, njóta og uppgötva og í gegnum það viljum við efla þau og styrkja. Eftir skátahúsheimsóknina fór hópurinn upp í Ugluklett og fékk að borða. Annan daginn fóru kennararnir síðan í fjöruferð með hópi barna úr Uglukletti og hinn daginn var farið í trjálundinn við Kvíaholt og upp á vatnstand.

Kennurunum var tíðrætt um hvað börnin í Uglukletti væru dugleg, kjörkuð, hjálpsöm, hefðu gott úthald, væru næm á umhverfið sitt og læs á mismunandi aðstæður. Þeir sem vilja kynna sér betur hvað Play iceland stendur fyrir geta lesið um það á heimasíðunni

http://www.fafuplay.com/international-play-iceland.html

Fyrri myndin er af hluta þeirra kennara sem komu í heimsókn og hin myndin er tekin í Englendingavík þar sem Nicki Buchan frá Ástralíu og Lucy Warwick frá Bretlandi  áttu þá ósk heitasta að  dýfa fæti í Atlandshafið og börnunum fannst ekki síður gaman að sjá hvernig þær báru sig að.


Share: