Plan-B Art Festival fer fram um helgina með breyttu sniði vegna Covid-19

ágúst 6, 2020
Featured image for “Plan-B Art Festival fer fram um helgina með breyttu sniði vegna Covid-19”

Þrátt fyrir hertar sóttvarnarreglur og krefjandi aðstæður í samfélaginu fer samtímalistahátíðin Plan-B Art Festival fram í Borgarnesi helgina 7. –9. ágúst, og markar árið 5 ára afmæli hátíðarinnar. Vegna COVID-19 hefur hátíðinni þó verið snúið á hvolf og dagskrá tekið talsverðum breytingum vegna þess. Í ár taka 19 listamenn frá 8 löndum í hátíðinni þátt og sýna fjölbreytt verk, sem þeim hefur með undraverðum hætti tekist að aðlaga að breyttu ástandi með skömmum fyrirvara.

Sýningarrými hátíðarinnar verða með breyttu sniði. Gluggagallerí verður í húsnæði Arion banka á Digranesgötu 2 í Borgarnesi þar sem gestum gefst færi á að ganga umhverfis húsið og njóta listar utan frá. Þá verður tímastillt innsetning í Grímshúsi í Brákarey þar sem einum gesti í einu verður hleypt inn í rýmið, en einnig verður hægt að upplifa verkið að utan. Hið víðfræga gjörningakvöld Plan-B verður streymt á laugardagskvöld kl. 20.00 á vefsíðu hátíðarinnar, planbartfestival.is. Þar verða á boðstólnum hinir ýmsu gjörningar og vídeóverk. Þrjú listaverk verða til sýnis í almenningsrými, við Landnámssetur Íslands, í matvöruversluninni Bónus og í Íþróttamiðstöðinni.

Áhugasamir eru hvattir til þess að fylgjast með Facebook-síðu hátíðarinnar en þar er hægt að nálgast frekari upplýsingar. 

 

 

 

Share: