Pistill um snjómokstur

febrúar 9, 2018
Featured image for “Pistill um snjómokstur”

Nú stendur yfir vetrarríki með snjókomu, vindgangi og skafrenningi. Þetta veðurfar hefur í för með sér mikið álag á alla, bæði íbúana sem þurfa að komast leiðar sinnar, oft við erfiðar aðstæður og síðan og ekki síður á þá sem annast þjónustu við íbúana við snjómokstur. Þeir vinna sitt starf af bestu getu, vinna hefst um kl. 5:00 á morgnana til að sem mestu sé lokið þegar fólk fer til vinnu og börn í skóla. Vinna við hreinsun gatna stendur síðan yfirleitt fram á kvöld við þessar aðstæður. Rétt er að koma nokkrum ábendingum á framfæri í þessu sambandi svo verkin gangi sem greiðast:

  1. Íbúar í þéttbýli eru beðnir um að leggja bílum eins og frekast er unnt inni í bílastæðum svo auðveldara sé að hreinsa götur.
  2. Þar sem óhjákvæmilegt er annað en að leggja bílum á götum er mælst til þess að þeim sé lagt við aðra hlið götunnar. Þegar þeim er lagt báðum megin götunnar getur verið erfitt að komast á milli þeirra með snjóruðningstækjum og aukin hætta verður á að þeir skemmist auk þess sem erfitt er að ryðja snjóinn af þeim.
  3. Ef bílum er lagt uppi á gangstéttum er ekki hægt að ryðja þær. Þá aukast líkur á að gangandi fólk, börn og fullorðnir, þurfi að ganga úti á götunni með tilheyrandi slysahættu.
  4. Sveitarfélagið sér ekki um að draga bíla lausa sem hafa fest sig í snjó.
  5. Sveitarfélagið sér ekki um að hreinsa bílastæði og innkeyrslur og ekki er hægt að ábyrgjast að snjór safnist ekki fyrir við enda þeirra.
  6. Að lokum eru íbúar minntir á að hreinsa snjó frá sorpílátum með góðum fyrirvara þá daga sem sorphirða stendur yfir.

Share: