Pílagrímsganga frá Bæ í Skálholt

júlí 8, 2013
Félagið Pílagrímar hefur um skeið undirbúið opnun pílagrímaleiðar frá Bæ í Borgarfirði í Skálholt. Félagið vill minna á sameiginlega sögu þessara staða og tengja saman þessi fornu menningarsetur og kirkjumiðstöðvar með pílagrímsgöngu frá Bæjarkirkju í Andakíl í Skálholt. Félaginu Pílagrímar er hugleikið að minna á merkilegt upphaf kristinnar kirkju og bókmenntaiðju hér í Borgarfirði.
Þess má einnig geta að Steinunn J. Kristjánsdóttir fornleifafræðingur að fara af stað með fornleifarannsókn í Bæ.
Gangan er um 120 km og hefur verið merkt með stikum mestan hluta leiðarinnar. Áður en lagt verður á stað verður sérstök dagskrá í Bæjarkirkju en þangað munu m.a. þrír biskupar koma í heimsókn, frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslans, Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup og séra Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholti.
 
Dagskrá og ferðaáætlun má lesa hér að neðan:
Kl. 13:00 – 13:15
Sr. Flóki Kristinsson: Hvers vegna pílagrímagöngur í lútherskri kirkju?
Kl. 13:15 – 14:00
Herra Karl Sigurbjörnsson biskup: Gamlar götur – nýjar víddir
Kl. 14:00 – 14:15 Ketilkaffi undir kirkjuvegg og kleinur.
Kl. 14:15 – 15:00
Helgihald: Frú Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands annast þjónustuna og séra Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholti flytur hugleiðingu og fararblessun.

Dagur 1
Pílagrímarnir sem ganga úr Borgarfirði leggja af stað frá Bæjarkirkju 16. júlí kl. 15.
Gengið verður þaðan gömlu leiðina vestur frá Nýja-Bæ um ásana við Blundsvatn að Einbúa við Grímsá og með ánni að Fossatúni. Þaðan verður gengið með veginum að Lundarkirkju. Um nóttina verður gist í Félagsheimilinu í Brautartunguog þar munu pílagrímar elda sér mat sem verður þar í boði á kostnaðarverði. Þar verður einnig hægt að fara í sund. Svefnpokagisting í Brautartungu kostar kr. 2.500,-
Dagur 2
17. júlí kl. 10 verður lagt af stað frá Brautartungu gengið verður að Lundarkirkjuí Lundarreykjadal og þaðan verður farið yfir Grímsá á vaði. Gengið verður upp hjá Snartarstöðum og farin Krosshólagata ofan í Skorradal. Dagleiðin endar með helgihaldi í Fitjakirkju. Gist verður á Fitjum í svefnpokagistingu og þar verður líka hægt að fá ódýran pílagrímsmat. Svefnpokagistingin kostar 3.500,-
Dagur 3
18. júlí verður farið frá Fitjakirkju og gengið um Síldarmannagöturyfir í Hvalfjörð. Gist verður að Hlöðum í Hvalfirði þar sem einnig verður hægt að kaupa sér kvöldverð og morgunverð. Kostnaður við mat og gistingu að Hlöðum er 6.000,- Gera þarf ráð fyrir að kostnaður vegna trúss frá Botni að Hlöðum sé kr. 2000,-
Dagur 4
19. júlí verður lagt af stað kl. 09 frá Botni í Hvalfirðiog gengið yfir Leggjabrjót til Þingvalla. Farið verður um Langastíg að Þingvallakirkju. Fyrirhugað er að gista í tjöldum á Þingvöllum og þegar þangað verður komið hjálpast hópurinn að við að grilla og tjalda. Kostnaður við gistingu í tjaldi er kr. 1400,- Matur á kostnaðarverði.
Dagur 5
20. júlí verður safnast saman í Þingvallakirkju kl. 09og hópurinn sameinast pílagrímunum sem leggja af stað þaðan í Skálholt á Skálholtshátíð. Göngunni líkur við Neðra-Apavatn, þar sem bílar bíða göngufólksins og flytja í náttstað, ef þess er óskað. Mikilvægt er að taka það fram ,að leiðin frá Þingvöllum yfir Lyngdalsheiði er mjög löng, rúmlega 30. km. Því væri gott að hafa plástra með sér og vera vel nestaður og vera undir það búinn að síðustu sporin yfir heiðina geti reynt á.
Þeir sem vilja t.d. gista á gistiheimilinu á Laugarvatni þurfa að bóka gistingu á eigin vegum, fyrir 6. júlíog hafa greitt fyrirfram ef þeir vilja vera öruggir um að fá þar inni. Gisting er pöntuð á netfanginu laugarvatn@hostel.is
Kostnaður fyrir þá sem gista á Laugarvatni:
Gjaldið fyrir kjötsúpuna og rúgbrauðið er 2.300 kr. og fólk getur borðað að vild.
Gisting: Verð miðast við að gestir komi með sitt til að sofa við.
Eins manns 5.800 kr. á herbergið
Tveggja manna 8.800 kr. á herbergið
Þriggja manna 11.200 kr. á herbergið
4 manna 14.400 kr. á herbergið
6 manna 20.800 kr. á herbergið

Kostnaður fyrir þá sem gista í Skálholti:
Svefnpokagisting: kr. 3.700
Kvöldverður: kr. 2.500
Morgunverður: kr. 800
Akstur Apavatn-Skálholt-Apavatn: fer eftir fjölda þátttakenda

Dagur 6
21. júlí verður safnast saman við Apavatn kl. 10og gengið þaðan um Mosfellsland að Spóastöðum og í Skálholt á Skálholtshátíð. Hátíðarmessan í Skálholtsdómkirkju hefst kl. 14.
Ath. Þeir sem vilja taka þátt í göngunni en treysta sér ekki til – eða hafa ekki tíma til – að ganga hana alla er velkomið að slást í för einstakar dagleiðir. Gangan er á ábyrgð hvers og eins þáttakanda.
Göngustjórar eru sr. Elínborg Sturludóttir og með henni sr. Flóki Kristinsson.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í göngunni eru beðnir um að skrá sig hjá elinborg.sturludottir@kirkjan.is
Upplýsingar um gönguna á vef Skálholts er að finna hér: http://skalholt.is/2013/06/26/pilagrimsganga/
 

Share: