Þau eru margvísleg verkefnin sem Slökkvilið Borgarbyggðar þarf að leysa hverju sinni. Á miðnætti þann 10. júlí sl. kom beiðni frá Lögreglunni á Vesturlandi um að bjarga dróna niður úr tré í Skallagrímsgarði í Borgarnesi.
Fram til þessa hefur verið venja að bjarga köttum niður úr trjám og var þessi björgunaraðgerð á laugardaginn sú fyrsta sinnar tegundar hjá slökkviliðinu. Þessi björgunaraðgerð getur verið til marks um nýja tíma í þessum efnum.
Dróninn fannst eftir leit og var komið í hendur þakkláts eiganda sem var að mynda Borgarnes úr lofti og náttúrufegurð þess.