Orkuveita Reykjavíkur sf

desember 12, 2001

Í morgun var undirritaður samningur um stofnun sameignarfyrirtækis milli Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hafnarfjarðarbæjar, Borgarbyggðar, Garðabæjar og Borgarfjarðarsveitar. Heiti sameignarfyrirtækisins er Orkuveita Reykjavíkur sem tekur til starfa 1. janúar 2002. Við stofnun yfirtekur fyrirtækið allar eignir og skuldir, réttindi og skyldur borgarstofnunarinnar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar, Hitaveitu Borgarness og eignarhluta Akranesbæjar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Eignarhlutir í sameignarfyrirtækinu grundvallast á samkomulagi hlutaðeigandi sveitarfélaga og skiptast þannig milli sameigenda: Reykjavíkurborg 92,22%, Akraneskaupstaður 5,45%, Hafnarfjarðarbær 0,94%, Borgarbyggð 0,75%, Garðabær 0,47% og Borgarfjarðarsveit 0,17%. Sameignarsamningurinn er gerður með fyrirvara um að fyrirliggjandi lagafrumvarp um stofnun sameignarfyrirtækisins Orkuveita Reykjavíkur verði samþykkt á Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 2001.
Fyrirtækið mun frá stofnun starfrækja útibú á Akranesi, í Borgarnesi og í Þorlákshöfn. Allir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem sameinast munu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og verða boðin þar sambærileg störf og þeir gegndu áður.
Þátttaka Borgarbyggðar í Orkuveitu Reykjavíkur byggir á viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Borgarbyggðar frá 10. desember s.l. um að Hitaveita Borgarness og eignarhluti Borgarbyggðar í HAB, sameinist Orkuveitunni. Markmið Borgarbyggðar með aðild að Orkuveitu Reykjavíkur eru að tryggja sama verð á heitu vatni í Borgarnesi og í Reykjavík til framtíðar og að öflugur aðili komi að veituframkvæmdum í dreifbýlinu. Hvoru tveggja er mikilvægur áfangi í að treysta búsetuskilyrði íbúa sveitarfélagsins og í að koma til móts við þarfir sívaxandi frístundabyggðar. Í framhaldi sameiningar mun Orkuveitan leggja áherslu á að kanna möguleika þess að veita þjónustu í hinum dreifðari byggðum Borgarbyggðar og jafnframt verður kannað með aðkomu Orkuveitunnar að rekstri vatnsveitu í Borgarbyggð.


Share: