Orgel fært byggðasafninu að gjöf

ágúst 20, 2007
Byggðasafni Borgarfjarðar barst góð gjöf nýverið þegar Gunnar Bernburg hljómlistarmaður gaf þangað orgel sem að öllum líkindum er upprunalega frá Borg á Mýrum.
 
Kirkjan á Borg var byggð árið 1881 og strax árið 1887 var stórt harmonium orgel keypt.
Eitthvað hafa menn misreiknað stærð kirkjunnar eða orgelsins því það komst ekki fyrir á loftinu og þurfti því að breyta loftinu. Orgelið var svo selt, sennilega stærðarinnar vegna, og endaði hjá forfeðrum Gunnars.
 
Eggert Jóhannesson hornleikari eignaðist orgelið síðar, en hann var í hljómsveit með Poul Otto Bernburg sem var afi áðurnefnds Gunnars. Orgelið var flutt að Eyrarbakka þar sem Eggert átti sumarhús og fór þaðan á sölu. Gunnar keypti þá gripinn því það var þá orðið forngripur og afi hans hafði sennilega æft og spilað á það með hljómsveit Eggerts. Orgelið er nú komið á heimaslóðir á ný og er geymt á Byggðasafninu þangað til tækifæri gefst til sýninga á því.

Share: